Fara í efni

Ný könnun um ferðalög Íslendinga og ferðaáform 2022

Sundlaugin á Hofsósi. - Mynd: Íslandsstofa
Sundlaugin á Hofsósi. - Mynd: Íslandsstofa

Ferðamálastofa birtir nú niðurstöður úr nýrri könnun meðal Íslendinga um ferðalög þeirra á árinu 2021 og ferðaáform á árinu 2022. Könnunin var gerð dagana 1. til 22. febrúar og var framkvæmdin í höndum Gallup. Sambærileg könnun hefur verið framkvæmd á vegum Ferðamálastofu í rúman áratug, eða frá árinu 2010.

Helstu niðurstöður 

 • Ferðalög erlendis
  • 37% landsmanna ferðuðust til útlanda árið 2021, ívið fleiri en árið 2020 en þá ferðaðist tæplega fjórðungur landsmanna utan. Til samanburðar þá ferðuðust 80% til útlanda árið 2019.
  • Þeir sem ferðuðust utan árið 2021 fóru að jafnaði 1,8 ferð, aðeins fleiri en 2020 og tæplega einni ferð skemur en 2019.
  • Meðalfjöldi gistinótta var 16,2 nætur ár síðasta ári, tæplega hálfri gistinótt lengur en árið 2020 en tæpum þremur nóttum skemur en árið 2019. 
 • Ferðalög innanlands
  • 84% landsmanna ferðuðust innanlands á síðasta ári, álíka hátt hlutfall og kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt síðustu ár.
  • Farnar voru að jafnaði 6,5 ferðir, álíka margar og árið 2019 en nærri einni ferð fleiri en árið 2020.
  • Um 17,1 gistinótt var varið á ferðalögum innanlands á síðasta ári en gistinætur hafa ekki mælst svo margar áður.
  • Um 76% ferðuðust innanlands í júlí í fyrra.  
  • Farnar voru að jafnaði 6,2 dagsferðir og hafa þær ekki mælst svo margar frá því mælingar hófust árið 2011.

ferðagjöf 2021

 • Ferðagjöf stjórnvalda

Nærri níu af hverjum tíu landsmönnum nýttu ferðagjöf stjórnvalda árið 2021, mun fleiri en árinu áður en þá nýttu 63% landsmanna ferðagjöfina sína. Um átta af hverjum tíu nýttu ferðagjöfina sjálfir og nærri einn af hverjum tíu gaf hana áfram. Af þeim sem nýttu ferðagjöfina sjálfir árið 2021, nýttu 46% hana á ferðalagi um landið, um 41% í heimabyggð og um 13% bæði í heimabyggð og á ferðalagi um landið. Sjá má skiptinguna á myndritinu hér til hliðar.

 • Fyrirhuguð ferðalög
  • Ríflega fjórðungur landsmanna hefur í hyggju að ferðast meira innanlands í ár en í fyrra, um þrír af hverjum fimm svipað og um 15% minna.
  • Ríflega helmingur hefur áform um að fara í utanlandsferð í ár. Um þriðjungur ætlar í sólarlandaferð eða borgarferð.  
 • Meðmælaskor (NPS) landsmanna fyrir ferðalög innanlands mældist 27 stig í ársbyrjun 2022, aðeins lægra en síðustu tvö ár. Um er að ræða kvarða á bilinu 1-10 þar sem spurt er hversu líklegt eða ólíklegt sé að fólk muni mæla með ferðalögum innanlands.

Ferðalög landsmanna 2021

Fleiri til útlanda

Nærri tveir af hverjum fimm (37%) landsmönnum fóru í utanlandsferð árið 2021 og er um að ræða næstlægsta hlutfall utanferða sem mælst hefur í könnunum Ferðamálastofu en hlufall þeirra sem ferðaðist utan mældist lægra árið 2020 eða 24%. Til samanburðar þá ferðuðust um 80% til útlanda árið 2019 og 83% árið 2018.

Þeir sem ferðuðust utan á síðasta ári fóru að jafnaði 1,8 ferð og gistu að jafnaði 16,2 nætur. Spánn (þ.m.t. Kanaríeyjar) og Portúgal voru sem fyrr vinsælasti áfangastaðurinn en þar á eftir komu Danmörk, Bretlandseyjar, Svíþjóð, Þýskaland og Frakkland.  Af þeim sem ferðuðust utan fóru um tveir af hverjum fimm í borgarferð, ríflega þriðjungur í sólarlandaferð og tæplega þriðjungur í heimsókn til vina eða ættingja. Einn af hverjum tíu fór í vinnutengda ferð.

Landsmenn ferðuðust í miklum mæli innanlands

Um 84% landsmanna ferðuðust innanlands á síðasta ári eða svipað hlutfall og fyrri kannanir hafa sýnt. Langflestir ferðuðust í júlí eða 76% en fjölmargir ferðuðust jafnframt í ágúst (62%) og júní (61%). Farnar voru að jafnaði 6,5 ferðir eða álíka margar og árið 2019 en nærri einni ferð skemur en á síðasta ári. Landsmenn vörðu um 17,1 gistinótt að jafnaði á ferðalögum innanlands sem er það mesta sem mælst hefur í könnunum Ferðamálastofu, hálfri gistinótt lengur en árið áður (2020) en þá var jafnframt slegið met í fjölda gistinótta á ferðalögum.

Niðurstöður gefa til kynna að um 28% gistinótta á ferðalögum hafi verið eytt á Suðurlandi um 24% á Norðurlandi, um 13% á Vesturlandi, um 13% á Austurlandi, um 10% á Vestfjörðum, 10% á Höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi og 2% á hálendinu.  

Um 83% ferða innanlands á síðasta ári voru tilkomnar vegna ferðalaga þar sem landsmenn voru í fríi eða skemmtiferð vegna áhugamála eða tómstunda. Um er að ræða álíka hátt hlutfall og árið áður (2020) en mun hærra en 2019 og 2018 en þá voru vinnutengdar ferðirr eða annars konar ferðir meira áberandi.

Dagsferðir

Um tveir af hverjum þremur (66%) landsmönnum fóru í dagsferð árið 2021 eða álíka margir og árið 2020. Farnar voru að jafnaði um 6,2 ferðir eða um einni ferð fleiri en árið 2020 og tveimur fleiri en árið 2019 . Um tvær af hverjum fimm dagsferðum árið 2021 voru farnar á Suðurlandið. Þar á eftir fylgdi höfuðborgarsvæðið (15% ferða) og Vesturlandið (13%). Þingvellir voru líkt og árið 2020 vinsælasti áfangastaðurinn í dagsferðum.  

Minnisstæðast 

Þegar spurt var hvað landsmönnum fannst minnisstæðast við ferðalögin innanlands á síðasta ári nefndu flestir einstaka staði eða svæði á landinu en flestir voru þeir staðsettir á Suðurlandi. Þar á eftir fylgdu staðir á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. Náttúrutengd atriði voru jafnframt nefnd sem og ferðaþjónustutengd atriði, heimsóknir og samverustundir með vinum og ættingjum.  Afþreying af ýmsu tagi var nefnd sem og veðurfar og menningartengd starfsemi. Um var að ræða opna spurningu þar sem svarendur gátu nefnt allt að þrjú atriði. Svörin má sjá í viðauka en þeim var raðað eftir 26 yfirheitum.   

Sjö af hverjum tíu stunduðu reglulega útivist

Spurt var um ástundun 19 útivistarmöguleika sem einstaklingar stunda í daglegu lífi og á ferðalögum sér til heilsubótar og/eða ánægju. Um sjö af hverjum tíu stunduðu almenna útiveru einu sinni í viku eða oftar á síðasta ári eða álíka margir og árið 2020. Um fimmtungur hafði farið oftar en einu sinni í mánuði á síðasta ári í lengri gönguferðir (þ.m.t. fjall- og jöklagöngur) en árinu áður (2020) fór fjórðungur í slíkar ferðir. Um 19% fóru í náttúruhlaup eða skokkuðu einu sinni í mánuði eða oftar, álíka margir og árið áður (2020) og 14% fóru í hjólaferðir einu sinni í mánuði eða oftar, ívvið færri en árið 2020.


 Ferðaáform 2022

Utanlandsferðir taka við sér

Mun fleiri landsmenn áforma utanlandsferð í ár en þegar þeir voru spurðir á sama tíma í fyrra. Ríflega helmingur (55%) ætlar að ferðast í meira mæli til útlanda, þrír af hverjum tíu (30%) svipað og 14,8% minna. Þegar kemur að innanlandsferðum ætla nærri þrír af hverjum fimm landsmönnum (59%) að ferðast álíka mikið innanlands í ár og í fyrra, um 29% meira og 13% minna.

Ferðaáform landsmanna 2022

ferðaáform

Ferðaáform landsmanna eru fjölbreytt að vanda. Um 53% ætla í sumarbústaðaferð innanlands á árinu, um 44% í heimsókn til vina og ættingja og um 34% í borgar- eða bæjarferð innanlands. Mun fleiri nefna í ár en í fyrra að þeir ætli í sólarlandaferð (35%), borgarferð erlendis (33%), vinnuferð (12%) eða íþróttatengda ferð (11%). Um einn hverjum tíu landsmönnum hefur engin ferðaáform á árinu.

Þegar sama spurning var lögð fyrir í byrjun árs 2020 eða áður en áhrifa kórónuveirufaraldursins fór að gæta höfðu 44% áform um að fara í sólarlandaferð og 51% borgarferð sem gefur til kynna að landsmenn eru ekki komnir í þann ferðagír sem þeir voru í fyrir faraldur.

 

Hvers konar ferðir eru fyrirhugaðar 2022

hvers konar ferðir

Ferðalög á tímabilinu febrúar- maí 2022

Um sjö af hverjum tíu landsmönnum (71%) sögðust hafa áform um ferðalög næstu mánuði (febrúar til maí), þar af ætlar tæplega helmingur í sumarbústaðaferð, um þriðjungur að heimsækja vini eða ættingja og tæplega þriðjungur í borgar- að bæjarferð innalands. Um tveir af hverjum fimm (39%) ætla að nýta sér hótelgistingu og um einn af hverjum tíu gistiheimili eða sambærilega gistingu.  


Heildarniðurstöður í skýrslu

Í yfirgripsmikilli skýrslu um könnunina eru niðurstöður settar fram í 14 köflum með myndrænum hætti og í töflum, auk viðauka og leiðbeininga um túlkun niðurstaðna. Fremst eru samandregnar niðurstöður en þaðan er vísað í nánari útlistun á niðurstöðum einstakra spurninga.

 • Samantekt 
 • Meðmælaskor 
 • Ferðalög almennt 
 • Ferðalög erlendis 
 • Ferðalög innanlands 
 • Gistinætur innanlands 
 • Ferðalög eftir landshlutum 
 • Gistinætur eftir landshlutum 
 • Staðir/svæði heimsótt 
 • Dagsferðir 
 • Staðir/Svæði heimsótt í dagsferðum 
 • Minnisstæðast úr ferðalögum 2021 og ferðagjöf stjórnvalda
 • Áætluð ferðalög 2022
 • Stunduð útivist  

Um könnunina  

Könnunin var unnin sem netkönnun á tímabilinu 1. til 21. febrúar 2022. Úrtakið var 1.977 einstaklingar, 18 ára og eldri af landinu öllu, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.  Svarfjöldi var 1.080 einstaklingar og var þátttökuhlutfallið 54,6%. Gögn könnunarinnar voru vigtuð til þess að úrtakið endurspeglaði þýðið með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum Gallup í samvinnu við Ferðamálastofu.   

Skýrslan í heild