Fara í efni

Ný könnun um ferðaáform Íslendinga

Ný könnun um ferðaáform Íslendinga

Langflestir eða um níu af hverjum tíu hafa áform um að fara í ferðalag innanlands í sumar eða haust þar sem gist er yfir nótt samkvæmt könnun sem Ferðamálastofa lét framkalla fyrr í mánuðinum. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á fundi í morgun.

Flest ferðalög munu eiga sér stað seinni hluta júlímánaðar en þá ætla þrír af hverjum fimm landsmönnum að ferðast. Ríflega helmingur ætlar að ferðast fyrri partinn í júlí, tæplega helmingur fyrri hlutann í ágúst og tveir af hverjum fimm seinni hlutann í júní. Ferðalög dragast síðan saman þegar líður á ágúst og það sem eftir er árs. Langflestir (93%) ætla ferðast um landið á eigin bifreið eða sem farþegi í einkabíl. 

Fleiri konur en karlar segjast ætla í ferðalag í sumar og haust. Um þriðjungur kvenna og ríflega fjórðungur karla ætla í þrjár til fjórar ferðir og ríflega fjórðungur karla og kvenna í fimm eða fleiri ferðir. 

Hversu lengi ætla landsmenn að gista og í hvers konar tegund gistingar 

Fjórðungur ætlar að gista eina til þrjár nætur á ferðalögum innanlands, tæplega fimmtungur fjórar til sex og tæplega fimmtungur sjö til tíu nætur. Þrír af hverjum tíu ætla að gista tvær vikur eða lengur.

Landsmenn ætla að nýta fjölbreytta gistimöguleika á ferðalögum innanlands en um 38% ætla að gista á skipulögðum tjaldsvæðum, um 34% á hótelum og um 22% á gistiheimili eða sambærilegri gistingu.

Fjölmargir ætla jafnframt að gista hjá vinum og ættingjum (35%) og í sumarhúsi í einkaeign (31%). Konur (30%) virðast ætla að gista hjá vinum og ættingjum í mun ríkari mæli en karlar (41%)

Þeir sem eru á aldrinum 50 til 67 ára eru líklegri (45%) að nýta sér hótel en yngri aldurshópar og þeir sem eldri eru (29%-31%). Hlutfall þeirra sem ætlar að nýta sér gistiheimili eða sambærilega gistingu eykst með hærri aldri. Þannig ætla 15% á aldrinum 18 til 29 ára að nýta sér þann valkost, 20% á aldrinum 30-49 ára, 27% á aldrinum 50-67 ára og 33% 68 ára og eldri.

Vinsælustu gistimöguleikarnir hjá yngsta aldurshópnum (18-29 ára) eru skipulögð tjaldsvæði (54%), gisting hjá vinum og ættingjum (50%) og sumarhús í einkaeign (41%).

Hvaða landsvæði verða heimsótt

Norðurlandið og Suðurlandið eru þeir landshlutar sem flestir hafa hug á að heimsækja í sumar og haust og á það bæði við heimsóknir höfuðborgarbúa og íbúa á landsbyggðinni. Þar á eftir koma Austurlandið, Vesturlandið og Vestfirðirnir.

Eyðsla

Landsmenn gera ráð fyrir að eyða að jafnaði um 72 þúsund kr. í ferðalög innanlands í sumar og haust. Um er að ræða heildarútgjöld sem ná yfir gistingu, veitingar, afþreyingu og ferðir. Karlar áætla að eyða tæplega 90 þúsund kr. eða 36 þús kr. hærri upphæð en konur. Þeir sem eru á aldrinum 50-67 ára ætla að eyða hærri upphæðum en aðrir aldurshópar. 

Dagsferðir

Það sama gildir um dagsferðir og ferðalög, fleiri konur en karlar ætla í dagsferð í sumar og haust sem er skilgreind sem skemmtiferð, 5 klst. löng eða lengri út fyrir heimabyggð án þess að gist sé yfir nótt. Flestar konur og karlar eru á því að fara sjö dagsferðir eða fleiri eða um þriðjungur. Ríflega fjórðungur karla og kvenna gerir ráð fyrir þremur til fjórum dagsferðum.

Afþreying

Spurt var um þá afþreyingamöguleika sem landsmenn telja líklegt að þeir greiði fyrir í nærumhverfi sínu, í dagsferðum eða á ferðalögum innanlands í sumar og haust. Flestir nefndu sund og jarðböð (72%) en þar á eftir fylgdu afþreyingamöguleikar á borð við matarupplifun (38%), söfn og sýningar (37%), leikhús og tónleika (31%), tónlistar eða bæjarhátíðir (25%) og dekur eða spa-meðferð (23%). Ýmiss konar náttúrutengd afþreying var nefnd í nokkrum mæli.

Landsmenn vilja upplifa

Þegar spurt var hvað landsmenn langaði mest að upplifa á ferðalögum á Íslandi í sumar eða haust nefndu flestir náttúrutengda þætti, einstaka staði eða svæði. Veðurfarslegir þættir voru auk þess nefndir af mörgum sem og heimsóknir og samverustundir með vinum og ættingjum. Afþreying af ýmsu tagi var ennfremur nefnd í nokkrum mæli.

Um var að ræða opna spurningu þar sem svarendur gátu nefnt allt að þrjú atriði; einstök landsvæði eða staði, afþreyingu, náttúrutengda upplifun eða hvað annað sem þeir vildu upplifa á ferðalögum.

Könnunin var unnin sem netkönnun 4.-8. maí síðastliðinn. Í úrtakinu voru Íslendingar 18 ár og eldri, valdir handahófskennt úr 18.000 einstaklinga álitsgjafahópi MMR sem valinn er með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarfjöldi var 1.023 einstaklingar. Niðurstöður könnunarinnar eru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í þýði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR og Ferðamálastofu.

Könnunin í heild - 

Kynning á könnuninni