Fara í efni

NATA auglýsir eftir styrkumsóknum

NATA logo
NATA logo

Auglýst hefur verið eftir styrkumsóknum frá NATA, samstarfssamningi Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Í samræmi við áherslubreytingu sem nýr samningur landanna kveður á um er nú hægt að sækja um styrki til tvenns konar verkefna. Annars vegar verkefna í ferðaþjónustu, eins og verið hefur, og hins vegar ferðastyrki, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna.

Styrkir til verkefna í ferðaþjónustu
Allir sem starfa að eflingu ferðaþjónustu á milli landanna þriggja geta sótt um styrk að hámarki 100.000 danskar krónur, eða að hámarki 50% þeirra kostnaðarliða sem styrktir eru. Skulu umsóknir fela í sér samstarf milli einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja í tveimur af löndunum þremur hið minnsta. Ekki eru veittir styrkir vegna launakostnaðar, ráðgjafar, útgáfu efnis eða vefsíðugerðar.

Sækja má um aðstoð á eftirfarandi sviðum ferðaþjónustu.

  • Til markaðssetningar.
  • Til nýsköpunar- og – vöruþróunar.
  • Í kynnisferðir á milli ferðaþjónustufyrirtækja.
  • Til gæða- og umhverfismála innan ferðaþjónustunnar.

Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi þátta:

  • Verkefnishugmyndar og gæða umsóknarinnar. Ófullgerðar umsóknir verða ekki teknar til greina.
  • Nýnæmis og nýsköpunargildis verkefnisins
  • Markaðstengingar
  • Kostnaðaráætlunar og annarrar fjármögnunar
  • Samfélagslegs gildis

Styrkir vegna kynnis- og námsferða
Eitt af markmiðum samstarfssamnings um ferðamál á milli Íslands, Grænlands og Færeyja er að auka samskipti og fjölga heimsóknum á milli landanna þriggja. Því er stefnt að því að ráðstafa 25% af samningnum í slíka styrki. Ferðaþjónustuverkefni eru þó enn sem fyrr þungamiðjan í samningnum.

Hér með eru auglýstir ferðastyrkir til þeirra sem vinna að samstarfsverkefnum sem varða tvö af löndunum þremur hið minnsta. Styrkjunum er einvörðungu ætlað að standa straum af ferðakostnaði, ekki gistingu eða uppihaldi. Hámarksstyrkur á hvern einstakling er  1.000 danskar krónur vegna ferðalaga milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar. Heildarstyrkur getur aldrei numið meira en 25% ferðakostnaðar. Samskipti skóla - árganga, bekkja - ganga að öðru jöfnu fyrir við mat á umsóknum.

Sækja má um styrk til kynnis- og námsferða eftirtaldra:

  • Skóla
  • Íþróttahópa
  • Tónlistarhópa
  • Annars menningarsamstarfs

Við mat á umsóknum verður tekið tillit til eftirfarandi atriða:

  • Verkefnishugmynd og gæði umsóknar. Ófullgerðar umsóknir verða ekki teknar til greina.
  • Tilgangur ferðar
  • Gagnkvæmni og tengslamyndun
  • Kostnaðaráætlun, fjármögnun

Hvar er hægt að sækja um?
Allar umsóknir skulu vera á dönsku eða ensku á þar til gerðum eyðublöðum (á word-formi) sem nálgast má hér að neðan. Best er að byrja á að vista eyðublöðin á eigin tölvu áður en útfylling hefst.

  • Umsókn vegna verkefna í ferðaþjónustu (Word) Danska - Enska
  • Umsókn vegna kynnis- og námsferða (Word)  Danska - Enska

Umsóknir sendist til
Óskað er eftir að skannaðar umsóknir með undirskrift verði sendar í tölvupósti á netfangið: skraning@ferdamalastofa.is

Einnig er hægt að senda útfyllt eyðublöð í pósti til:
NATA
c/o Ferðamálastofa
Geirsgata 9
101 Reykjavík

Skilafrestur
Lokafrestur til að skila umsókn er 30. september 2011. Svör við umsóknum verða send umsækjendum eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.

Til viðtals á Vestnorden
Vakin er athygli á því að fulltrúar úr stjórn NATA verða til viðtals á Vestnorden kaupstefnunni í Þórshfn í Færeyjum 14 september næstkomandi og geta þá leiðbeint væntanlegum umsækjendum.