Fara í efni

Nánara niðurbrot brottfarartalna með fjölgun þjóðerna

Í júní síðastliðnum var þjóðernum í brottfarartalningum á Keflavíkurflugvelli fjölgað úr 18 í 32. Því eru nú komnir fimm mánuðir þar sem hægt er að greina tölurnar nánar niður á þjóðerni en hægt hefur verið fram til þessa.

Hverjir bættust við?

Þjóðernin sem bættust við eru Austurríkismenn, Belgar, Írar, Hong Kong búar, Indverjar, Ísraelar, Singapúr-búar, S-Kóreumenn og Tævanar. Ástralir og Ný-Sjálendingar eru nú ennfremur taldir sérstaklega og þá undir sama hatti og hið sama má segja um Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eista, Letta og Litháa.

Samantekt með nánari niðurstöðum

Í nýrri samantekt hér á vefnum má meðal annars skoða skiptingu brottfara þessara 32 þjóðerna eftir mánuðum, fyrir sumarmánuðina sérstaklega og tímabilið í heild. Þá má einnig sjá skiptingu eftir markaðssvæðum með nákvæmari hætti en verið hefur.

Önnur þjóðerni lækka í 6-7%

Markmiðið með fjölgun þjóðerna var að fá nánara niðurbrot á þau þjóðerni sem hafa lent í flokknum "annað“ í talningunum. Ef litið er til ársins 2016 og fyrri hluta þessa árs, var hlutfall þessa hóps á bilinu 15% til 20% eftir mánuðum en hefur nú lækkað í 6-7% af heild.

Ýmsar áhugaverðar upplýsingar

Í samantektinni má t.d. sjá að yfir sumarmánuðina voru 493.564 brottfarir, eða nærri tvær af hverjum þremur (63,5%), frá tveimur markaðssvæðum, N.-Ameríku og Mið- og Suður-Evrópu. Þar á eftir koma Norðurlöndin með 9,0% og Asíulönd með 7,8%.

Af einstaka þjóðernum bera Bandaríkjamenn höfuð og herðar yfir aðra en fjöldinn dreifist nokkuð þar fyrir neðan. Þegar kemur niður fyrir 6. fjölmennasta þjóðernið er þannig hvert þjóðerni komin undir 4% hlutfall af heildarfjölda brottfara. 

Sé litið til haustmánuða eingöngu (september og október) má sjá að hlutdeild Breta og Asíubúa hækkar nokkuð en Mið- og Suður-Evrópubúa lækkar.

Nánari samanburð má sjá í Excel-skjalinu hér að neðan.

Júní-Október