Fara í efni

Nafn óskast!

Kría
Kría

Ferðamálastofa, í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands, efnir til samkeppni um nafn á nýju gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu. Nafnið skal vera á íslensku og lýsandi fyrir verkefnið en jafnframt þjált í framburði á alþjóðavettvangi.

100.000 króna verðlaun
Vinningshafi hlýtur í verðlaun 100.000.- kr. Ferðamálastofa áskilur sér óskoraðan rétt til að nota það nafn sem hlutskarpast verður án þess að til komi aðrar greiðslur en verðlaunaféð. Ef fleiri en einn aðili eiga sömu tillögu verður vinningshafinn dreginn út.

Skilafrestur til 18 október
Keppnin er öllum opin og frestur til að skila inn tillögum er til 18. október 2010.

Tillögum skal skila, í lokuðu umslagi merktu dulnefni, til Ferðamálastofu, Geirsgötu 9, 101 Reykjavík. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag með réttu nafni þátttakanda, heimilisfangi og símanúmeri.

Nánar um gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu
Ferðaþjónusta á Íslandi er sívaxandi atvinnugrein bæði með tilliti til aukins straums ferðamanna en einnig hvað varðar þekkingu og þróun innan  greinarinnar. Ferðaþjónusta snýst, eins og nafnið segir til um, fyrst og fremst um þjónustu.  En þjónustuna  þarf að vanda og það er gert  m.a. með því að tryggja að gæði, sem og að fagmennska og sjálfbærni séu höfð að leiðarljósi hvert sem litið er. Skipulagt umhverfisstarf ferðaþjónustuaðila og  ferðamálayfirvalda og stöðugar umbætur á gæðum í þjónustu styrkja og efla ferðaþjónustuna sem atvinnugrein og því er mikilvægt að sem flestir séu meðvitaðir hvort heldur um er að ræða gæði þjónustunnar eða sjálfbærni greinarinnar þannig að hún megi dafna og þrífast um ókomna tíð.

Ferðamálastofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands hafa um nokkurt skeið unnið að samræmdu gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu sem fyrirhugað er að innleiða á komandi misserum. Meginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi.

Gæðakerfið skiptist í tvo flokka;
? Stjörnuflokkun fyrir gististaði  ( frá einni og upp í fimm stjörnur) innan 5-7 undirflokka.
?  Önnur þjónusta sem tengist ferðamanninum, þessi úttekt byggist á tvennskonar viðmiðum, annarsvegar almennum viðmiðum og hinsvegar sértækum viðmiðum fyrir hvern og einn undirflokk sem verða vel á þriðja tuginn.  

Umhverfiskerfið byggir á fjórum höfuðflokkum þar sem 16 meginatriði eru skoðuð. Flokkarnir eru:  orkunýting, endurvinnsla, náttúrvernd og samfélagsleg ábyrgð.  Í framhaldi af úttektinni  er þjónustuaðilunum raðað í 3 flokka.

Nánari upplýsingar veitir Alda Þrastardóttir hjá Ferðamálastofu, alda@icetourist.is