Fara í efni

Markaðsátak í ferðaþjónustu haustið 2009

Haust
Haust

Ferðamálastofa í samstarfi við iðnaðarráðuneytið, Útflutningsráð og Reykjavíkurborg, auglýsir eftir tillögum frá íslenskum ferðaþjónustuaðilum að samstarfsverkefnum til markaðssetningar Íslands á tímabilinu október til desember 2009. Um er að ræða verkefni sem dreifast á meginmarkaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu í Bretlandi, á meginlandi Evrópu, í N-Ameríku og á Norðurlöndum.

Heildarráðstöfunarfé/-framlag til samstarfsverkefnanna eru 50 milljónir króna sem komið getur til útgreiðslu í fyrsta lagi 1. nóvember 2009. Mótframlag umsóknaraðila skal vera að lágmarki tvöfalt hærra en framlag Ferðamálastofu (2 kr. á móti einni). Með þessu móti er gert ráð fyrir að heildarframlag til átaksins nemi að lágmarki 150 millj. kr.

  • Lágmarksframlag til eins verkefnis miðast við kr. 5.000.000,-
  • Hámarksframlag til eins verkefnis miðast við kr. 10.000.000,-

Eftirfarandi forsendur verða lagðar til grundvallar mati á verkefnum:

  • Áhersla verði á fjölmenn svæði/borgir sem staðsettar eru innan tiltölulega stuttrar vegalengdar frá flugvöllum í Skandinavíu, Bretlandi, meginlandi Evrópu og Bandaríkjunum sem íslensk félög fljúga til og frá á tímabilinu október 2009 til mars 2010.
  • Um sé að ræða markaðs- og söluverkefni, sem hvetji neytendur til Íslandsferðar í haust eða vetur.
  • Megináhersla sé á að nota kynningu/auglýsingar á Internetinu og í dagblöðum.
  • Markmið verkefnis skulu vera skýr, hnitmiðuð og vel skilgreind.
  • Þeir markhópar sem verkefnið beinist að skulu skilgreindir með skýrum hætti.
  • Fjárhagsáætlun sé skýr og uppsett í umsókn.
  • Tímaáætlun skal tíunduð en gert er ráð fyrir að fjármunir nýtist í síðasta lagi til markaðssetningar í mars 2010.
  • Lagt verði mat á það hverju verkefnið geti hugsanlega skilað, m.a. með tilliti til útbreiðslu þeirra miðla sem um ræðir og markhópa sem verkefnið beinist að.
  • Greint verði frá því með hvaða hætti árangur verði metinn að verkefni loknu og hvaða mælikvörðum verði beitt. Kallað verður eftir slíku árangursmati.
  • Um sé að ræða verkefni sem ekki hefur þegar verið gert ráð fyrir í markaðsáætlunum umsækjenda.
  • Mótframlag umsækjanda í krónum talið
  • Raunhæfi framkvæmdaáætlunar umsóknarinnar
  • Annarra markaðsaðgerða sem eru í framkvæmd á sama tíma

Umsóknareyðublað
Umsóknum skal skilað á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt að nálgast hér að neðan. Umsóknum sé skilað á íslensku og til þeirra vandað. Umsóknarfrestur er til og með 20. september 2009. Ekki verður tekið tillit til annarra gagna en umsóknarinnar sjálfrar.

Umsóknir verða metnar af úthlutunarnefnd á grundvelli ofangreindra atriða og er gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir í síðasta lagi 10. október 2009. Ákvarðanir verða teknar á grundvelli ofangreindra forsendna og verður fyllsta jafnræðis gætt við mat á tillögum. Framlag Ferðamálastofu getur aldrei numið hærra hlutfalli en 33% af heildarútgjöldum vegna verkefnis. Ferðamálastofa hefur umsjón með verkefninu og samningagerð við samstarfsaðilana.