Fara í efni

Lokaáfangi í gerð áfangastaðaáætlunar Norðurlands hafinn

Á leiðinni á Mývatn

Á undanförnum vikum hefur Björn H. Reynisson, verkefnisstjóri áfangastaðaáætlana á Norðurlandi farið um landshlutann og boðið öllum sem vilja að koma til fundar við sig að ræða það sem helst brennur á hverjum og einum. Eitt af helstu umræðuefnum á þessum fundum var gerð áfangastaðaáætlana. Boðið var upp á fundi á Hvammstanga, Skagaströnd, Skagafirði, Fjallabyggð, Akureyri, Húsavík, Mývatn og Þórshöfn. Viðtökurnar á þessum fundum voru afar góðar og var almenn ánægja með fundina.

Lokaáfangi hafinn

Lokaáfangi í gerð áfangastaðaáætlunar Norðurlands er nú hafinn í honum felst meðal annars að gefa út stöðuskýrslu, sem var gefin út í janúar. Tilgangur hennar var meðal annars sá að gefa fólki tækifæri til þess að koma á framfæri athugasemdum við þá vinnu sem nú þegar hefur verið unnin. Þá verður haft samband við sveitarfélög til þess að fara yfir útfærslu verkefna og forgangsröðun þeirra, auk þess sem fundur með stýrihópi verkefnisins verður haldinn á næstu vikum. Milli funda sitja verkefnisstjórar á Norðurlandi við skrif á áfangastaðaáætluninni sjálfri, en henni verður skilað inn til Ferðamálastofu í apríl.

Nánar má lesa um gerð áfangastaðaáætlana á Norðurlandi á heimasíðu Markaðsstofu Norðurlands. Á vef Ferðamálastofu eru reglulega fluttar fréttir af vinnu við gerð áfangastaðaáætlana og nánari upplýsingar um verkefnið má einnig nálgast hér.