Fara í efni

Líflegar umræður á málþingi á Höfn

Eins og fram hefur komið voru niðurstöður nýútkominnar skýrslu um þolmörk ferðamennsku í friðlandi á Lónsöræfum kynntar á málþingi á Höfn í Hornafirði sl. fimmtudag. Góður rómur var gerður að skýrslunni og þótti málþingið takast vel.

Lónsöræfi voru sem kunnugt er einn af fimm vinsælum ferðamannastöðum þar sem Ferðmálaráð, í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, lét gera rannsóknir á þolmörkum ferðamennsku. Auk Lónsöræfa er búið að vinna úr niðurstöðum fyrir Skaftafell og kom rannsóknarskýrsla út sl. vor. Hinir staðirnir eru Landmannalaugar, Mývatnssveit og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum og er verið að vinna skýrslur fyrir þá.

Þær aðferðir sem stuðst er við í þolmarkarannsóknunum taka mið af kenningum fræðimanna á þessu sviði en samkvæmt þeim eru þolmörk ferðamannastaða einkum skoðuð út frá fjórum þáttum: Innviðum, sem fjalla um framboð ferðamennsku, skipulag og manngert umhverfi; viðhorfi gesta, sem snerta upplifun og skynjun ferðamannanna; viðhorfi heimamanna til ferðamennsku og loks náttúrulegu umhverfi, sem fjallar um vistkerfin, gróður og jarðveg. 

Þolmörkum náð á vissum sviðum
Bergþóra Aradóttir, sérfræðingur hjá Ferðamálasetri Íslands, segir að samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar sé almenn ánægja ríkjandi hjá þeim ferðamönnum sem leggja leið sína um Lónsöræfi og af því megi draga þá ályktun að þolmörkum hvað varðar þann þátt, þ.e. viðhorf gesta, sé ekki náð. Sömu leiðis séu heimamenn ánægðir með stöðu mála. Hvað varðar innviði megi hins vegar álykta að þolmörkum geti verið náð á vissum sviðum. Aðgengi að Lónsöræfum sé fremur torvelt og samkvæmt rannsókninni sé umferð í mesta lagi miðað við hversu hættulegur og erfiður vegurinn inn á svæðið sé. Þá séu menn ósáttir við stöðu salernismála og að gisting í skálum á svæðinu sé fullnýtt nokkra daga á ári.

Við mat á gróðurfari og öðrum umhverfisþáttum voru 4 gönguleiðir á svæðinu skoðaðar og í ljós kom að þolmörkum sé náð á tveimur þeirra og að hluta til á einni til viðbótar. Þannig eru farnir að myndast stígar til hliðar við aðalgönguleiðirnar og gróður farinn að láta á sjá.

Líflegar umræður
Að sögn Bergþóru sköpuðust líflegar umræður á þinginu um hvernig nýta mætti niðurstöður rannsóknarinnar og bregðast við á þeim sviðum sem þolmörkum er náð. T.d. var þeim möguleika velt upp hvort brúa ætti Skyndidalsá, einn aðal farartálmann inn á svæðið, og bæta þannig aðgengi þannig að svæðið opnaðist fyrir fleirum. Á móti þeirri hugmynd standa rök þeirra sem segja að þar með sé verið að skemma fyrir þeim ferðamönnum sem einkum sækja svæðið eins og það er nú, þ.e. fólk sem sækist eftir ró og frið á fáfarnari slóðum. ?Fólk ræddi talsvert á málþinginu hvort e.t.v. væri skynsamlegt að skipta Íslandi upp í svæði sem höfðað gætu til ólíkra hópa ferðamanna. Lónsöræfi gætu þá verið svæði fyrir þá sem sækjast eftir gönguferðum á fáfarnari slóðum og þar af leiðandi ætti að hafa aðgengið takmarkað.?

Ferðaþjónustan nýti sér niðurstöðurnar
Bergþóra segir að almenn ánægja hafi ríkt með málþingið á Höfn og að heimamenn hafi verið afar sáttir að fá kynningu á skýrslunni heima í héraði. ?Einnig hafa aðilar í ferðaþjónustu líst yfir ánægju með þolmarkarannsóknirnar því með þeim hefur ferðaþjónustan aðgang að grunnrannsóknum sem byggðar eru vísindalegum grunni og getur notað þær í ákvarðanatöku sinni,? segir Bergþóra.

Í annarri útgáfu af þessari frétt af eldri vef Ferðamálaráðs er að finna myndir frá málþinginu. Hægt að smella á myndirnar til að sjá stærri útgáfu. Skoða myndir