Fara í efni

Leiðsögunám á háskólastigi

Langisjór
Langisjór

Endurmenntun Háskóla Íslands fer í haust af stað með þriggja missera leiðsögunám á háskólastigi samhliða starfi fyrir þá sem vilja búa sig undir starf leiðsögumanns á Íslandi. Sérhæft nám á háskólastigi í leiðsögn hefur ekki staðið til boða hér á landi fyrr og er ætlunin að styrkja enn frekar fagmennsku og fjölbreytileika í faginu með nýju námi. Bæði verður hægt að stunda námið í staðnámi í húsakynnum Endurmenntunar eða í fjarnámi sem þjónar fólki af landsbyggðinni sérstaklega vel.

Megináhersla námsins er lögð á hagnýta þekkingu á sviði leiðsagnar með erlenda ferðamenn. Miðað er að því að nemendur geri sér grein fyrir eðli og starfsemi ferðaþjónustu á Íslandi og kunni skil á hlutverki og ábyrgð leiðsögumanns. Þjálfun í hópstjórn og samskiptum við ferðamenn með ólíkar væntingar er hluti af náminu. Farið verður yfir ímynd lands og þjóðar ásamt þýðingu atvinnugreinarinnar fyrir þjóðarbúið. Eftir námið eiga nemendur m.a. að hafa haldgóða þekkingu á helstu þáttum náttúrufars, sögu og menningu Íslands ásamt þróun íslensks samfélags og geta miðlað þessari þekkingu til ferðamanna. Mikilvægt er fyrir leiðsögumenn að vera vel að sér í erlendu tungumáli og því er lögð áhersla á aukinn sérhæfðan orðaforða sem tengist sögu, menningu og náttúru Íslands á völdu tungumáli.

Viðurkennt sem aukagrein
Námið er 60 eininga nám (ECTS) á grunnstigi háskóla og er kennt á þremur misserum. Kennd er ein námsgrein í senn sem lýkur með prófi og/eða verkefni áður en sú næsta hefst. Hægt er að fá námið viðurkennt sem aukagrein við hugvísindadeild sem og í ferðamálafræði Háskóla Íslands.

Inntökuskilyrði í námið er stúdentspróf eða sambærilegt menntun. Gott vald á íslenskri tungu sem og fullt vald á því tungumáli sem umsækjandi hyggst nota í leiðsögn. Standast þarf inntökupróf í tungumálinu.

Eins og í öllu lengra námi hjá Endurmenntun er sérstakt fagráð starfandi með þessari námsbraut sem er ráðgefandi um faglegt innihald  og þróun námsins. Í ráðinu sitja m.a. ferðamálastjóri, formaður Félags leiðsögumanna, fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar ásamt fulltrúum ferðamálafræða og hugvísindadeildar HÍ.

Námið hefst í september 2008 og enn eru nokkur sæti laus.

Nánari upplýsingar á www.endurmenntun.is eða hjá verkefnastjóra námsins
Jóhönnu Rútsdóttur í síma 525-5292