Fara í efni

Laust starf: Forstöðumaður Rannsókna- og tölfræðisviðs

Laust starf: Forstöðumaður Rannsókna- og tölfræðisviðs

Ferðamálastofa óskar eftir að ráða forstöðumann rannsókna- og tölfræðisviðs. Forstöðumaður stýrir daglegu starfi sviðsins í samráði við ferðamálastjóra. Forstöðumaður leiðir, stjórnar og ber ábyrgð á söfnun, meðhöndlun og birtingu tölfræðilegra gagna er varða ferðaþjónustu ásamt yfirsýn rannsókna á sviði ferðamála, hvort heldur sem unnar eru hjá Ferðamálastofu eða öðrum, í samstarfi við atvinnugreinina og aðrar opinberar stofnanir. Um er að ræða fullt starf á starfsstöð Ferðamálastofu í Reykjavík.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, s.s. á sviði gagnavinnslu og gagnagreiningar, framhaldsmenntun er æskileg
  • Árangursrík reynsla af stjórnun og starfsmannamálum
  • Reynsla og þekking á sviði ferðaþjónustu er æskileg
  • Góð þekking og færni í meðferð og úrvinnslu gagna, þekking á gagnagrunnum og tölfræðilegri greiningu
  • Reynsla af opinberri stjórnsýslu er kostur
  • Fagmennska, frumkvæði, skipulagshæfni og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum
  • Góð íslensku- og enskukunnátta í tali og riti er skilyrði

Ferðmálastofa er ríkisstofnun sem heyrir undir stjórn ráðherra. Stofnunin fer með stjórnsýslu ferðamála samkvæmt lögum um Ferðamálastofu. Hlutverk Ferðamálastofu er að stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi að teknu tilliti til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags ásamt því að vinna að samræmingu, greiningum og rannsóknum í ferðaþjónustu með hliðsjón af stefnu stjórnvalda. Ferðamálastofa er eftirsóttur vinnustaður og framundan eru fjölbreytt og spennandi verkefni. Starfsstöðvar eru í Reykjavík og á Akureyri og hjá stofnuninni starfa 23 starfsmenn. 

Umsóknarfrestur er til og með 11. apríl nk. Umsókn þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf með rökstuðningi um hvernig viðkomandi uppfyllir hæfniskröfur starfsins. Við ákvörðun um ráðningu verður, auk framangreindra viðmiða, tekið mið af frammistöðu í starfsviðtali og umsagna sem aflað er. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Áhugasamir einstaklingar eru hvattir til að sækja um starfið, óháð kyni. Öllum umsóknum verður svarað eftir að ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðuneytis við viðkomandi stéttarfélag. 

Nánari upplýsingar veita Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri (arnar.mar.olafsson@ferdamalastofa.is) og Helga Birna Jónsdóttir ráðgjafi Intellecta (helga@intellecta.is) í síma 511 1225.