Kortlagning auðlinda ferðaþjónustunnar komin á góðan rekspöl

Kortlagning auðlinda ferðaþjónustunnar komin á góðan rekspöl
Frá kynningarfundinum í Vík í gær. Mynd: BJ

Í gær stóð Ferðamálastofa fyrir kynningarfundi á Vík í Mýrdal þar sem kynntar voru niðurstöður forverkefnis að kortlagningu auðlinda ferðaþjónustu á Íslandi. 

Byrjað á fimm sveitarfélögum

Verkefnið er meðal aðgerða sem kveðið er á um í Ferðamálaáætlun 2011-2020 og var ákveðið að byrja á fimm sveitarfélögum á Suðurlandi: Rangárþingi Ytra, Rangárþingi Eystra, Mýrdalshreppi, Skaftárhreppi og Ásahreppi og nýta reynsluna af því til að skipuleggja verkefnið fyrir landið í heild. Ferðamálastofa fjármagnar og stýrir verkefninu og var samið við Rannsóknamiðstöð ferðamála um framkvæmdina og Landmælingar Íslands fengnar til samstarfs með faglega ráðgjöf þróun vefsjár o.fl.

Landfræðileg framsetning gagna

Markmiðið með verkefninu er að búa til gagnabanka þar sem safnað er í kortagrunn upplýsingum um þjónustu, aðdráttarafl og sérstöðu hvers svæðis. Gögnin verða birt í vefsjá sem nýtist þegar kemur að uppbyggingu, skipulagi, stefnumótun, vöruþróun og markaðssetningu ferðamála á svæðinu. Með samlagningu korta og tengingu við gagnagrunn Ferðamálastofu yfir ferðaþjónustuaðila er hægt að átta sig t.d. á hvar mest aðdráttarafl er af tiltekinni tegund og hvaða þjónusta er fyrir hendi samhliða, en einnig hvar vantar að skilgreina aðdráttarafl eða byggja upp þjónustu. Þannig er mögulegt að leggja grunn að og þróa vörupakka sem byggja á sérstöðu svæðisins.

Staðir með aðdráttarafl fyrir ferðafólk

Vinnan við öflun gagna og undirbúning kortlagningar auðlinda ferðaþjónustu í sveitarfélögunum fimm fór fram í þremur áföngum. Fyrst var um að ræða undirbúning og heimildavinnu, því næst hnitsetningu gagna og að lokum rýni aðila sem sveitarfélögin skipuðu að ósk verkefnastjórnar. Áherslan var á að kortleggja staði sem með einhverjum hætti voru tilgreindir sem áhugaverðir eða sérstakir eða verkefnastjórn mat að þyrftu að vera með þar eð þeir gætu haft aðdráttarafl fyrir ferðafólk.

Í grunninum eru nú hátt í 800 staðir sem á einn eða annan hátt eru taldir áhugaverðir. Þeim er skipt í þrjá yfirflokka; landslag, manngert og vistfræði. Hver um sig er síðan skipt í undirflokka, alls 25 talsins. Við þetta tengist síðan grunnur Ferðamálastofu með upplýsingum um ferðaþjónustuaðila á svæðinu.

Framhald fyrir landið í heild

Mikil reynsla hefur þegar fengist af verkefninu sem nýtt verður fyrir framhaldið. Fyrirhugað er að halda áfram með aðra landhluta á komandi ári þannig að til verði gagnabanki fyrir allt landið. Nákvæm úrvinnsla er enn í mótun, m.a. frekari þróun vefsjár og fyrirkomulag gagnasöfnunar. Þá verða einnig gerðar notendaprófanir með þar fyrir augum að fá ábendingar um notagildi og framsetningu. Markmiðið er að verkefnið muni skila verulegum ávinningi þegar kemur að skipulagi og uppbyggingu ferðaþjónustusvæða.

Tenglar

Skýrsla um verkefnið

Kynning Edward H. Huijbens, Rannsóknamiðstöð ferðamála 


Athugasemdir