Fara í efni

Kortavelta ferðamanna í janúar

©arctic-images.com
©arctic-images.com

Alls nam greiðslukortavelta erlendra ferðamanna 4,8 milljörðum kr. í janúar sem er 26,5% aukning frá sama mánuði árinu áður. Þetta kemur fram í tölum Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Helmingsaukning í skoðunarferðir

Athyglisvert er að 49% aukning varð í kortaveltu erlendra ferðamanna í skipulagðar skoðunarferðir og ýmsa sérsniðna ferðaþjónustu eins og t.d. hvalaskoðun. Kortavelta í þennan útgjaldalið nam 1,2 milljörðum kr. í janúar. Er að það er hærri upphæð en ferðamenn greiddu fyrir gistiþjónustu, sem hingað til hefur verið stærri útgjaldaliður. Í janúar greiddu erlendir ferðamenn 963 millj. kr. fyrir gistiþjónustu.

Menningarstarfsemin blómstrar

Veitingahús njóta góðs af vaxandi ferðamannastraumi. Þannig greiddu erlendir ferðamenn 537 millj. kr. fyrir veitingar með kortum sínum í janúar sem er 40% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Erlend kortavelta hjá bílaleigum í mánuðinum var 330 millj. kr. sem er 37% aukning frá janúar á síðasta ári. Þá er greinilegt að erlendir ferðamenn sækja í vaxandi mæli menningarviðburði og afþreyingu því erlend kortavelta í þeim geira jókst um 38% og nam 115 millj. kr. í mánuðinum. Af einstökum menningarliðum má nefna að velta í janúar í söfnum og galleríum jókst um 64% og á tónleika og í leikhús jókst erlend kortavelta um 46% frá janúar í fyrra.

Samdráttur í innanlandsflugi

Þó fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað komu í janúar hafi aukist um 40% frá janúar í fyrra var heildar greiðslukortavelta þeirra í innanlandsflug 2% minni en í janúar í fyrra. Þá dróst erlend kortavelta í farþegaflutningum á sjó saman um 40% á milli ára.

Greiðslukortavelta á mann

Greiðslukortavelta á hvern erlendan ferðamann í janúar var um 102.800 kr., ef miðað er við komur erlendra ferðamanna til landsins í mánuðinum samkvæmt talningum Ferðamálastofu. Útgjöld á hvern ferðamann drógust saman um 10,0% í krónum talið frá janúar 2013.

Pakkafeðir ekki innifaldar

Hér ber að hafa í huga að kortavelta útlendinga sem kaupa farmiða eða pakkaferðir til Íslands frá heimalandi sínu eru ekki meðtaldar nema kortaveltan fari í gegnum íslenska færsluhirða. Þannig eru erlendar greiðslur vegna flugferða hingað til lands og greiðslur til erlendra ferðaskrifstofa eða annarra milliliða ekki meðtaldar. Þá eru úttektir á reiðufé úr hraðbönkum ekki meðtaldar. Verði þannig t.d. hlutfallsleg aukning í sölu pakkaferða má leiða að því líkur að kortavelta á hvern ferðamenn lækki.

Kortavelta í janúar 2014 tafla

Um kortaveltu ferðamanna

Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaiðnaðar. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum en ekki eftir uppgjörstímabilum og er samtalan því eilítið frábrugðin þeim gögnum sem Seðlabankinn birtir.

Nánari upplýsingar veita Emil B. Karlsson (emil@bifrost.is, GSM 822 1203) og Pálmar Þorsteinsson (palmar@bifrost.is, GSM 868 8578)