Könnun á rekstrarumhverfi hópferðabifreiða

Könnun á rekstrarumhverfi hópferðabifreiða
Rúta

Starfshópur sem samgönguráðherra skipaði í byrjun árs til að fjalla um rekstraraðstæður þeirra sem reka hópferðabifreiðar hefur skilað skýrslu sinni. Skýrslan í heild er aðgengileg á vef Samgönguráðuneytisins. Meðal niðurstaðna hópsins er að endurskoðuð verði álagning virðisaukaskatts af ferðaþjónustunni og áhrif virðisaukaskatts á allar greinar hennar.

Hlutverk starfshópsins var að taka saman yfirlit um aðgerðir stjórnvalda og aðrar aðgerðir sem snert hafa rekstur hópbifreiða undanfarin ár og meta hvernig tekist hafi, leggja mat á afkomu greinarinnar í dag og meta kosti þess og galla að greinin verði gerð virðisaukaskattskyld, segir í frétt á vef Samgönguráðuneytisins.

Margs konar tölur koma fram í skýrslunni, meðal annars að farþegum á sérleyfisleiðum hafi farið fjölgandi frá árinu 2002. Það ár voru þeir rúmlega 377 þúsund talsins en árið 2004 voru þeir 413 þúsund. Árið 1960 voru farþegar á sérleyfisleiðum hins vegar kringum 635 þúsund.

Starfshópurinn telur að flest bendi til þess að eitt virðisaukaskattskerfi eigi að gilda um allan rekstur. Hópurinn telur sig ekki í aðstöðu til að leggja til virðisaukasattsskyldu á rekstur hópferðabifreiða. ,,Rekstur hópbifreiðar er hluti af umfangsmikilli þjónustu við ferðamenn sem spannar allt frá flutningi ferðamanna til landsins, innviðum hérlendis, afþreyingu o.fl. Rekstur þessi er alls ekki allur innan núverandi virðisaukaskattsskerfis. Starfshópurinn telur sér heldur ekki fært að leggja til að allir fólksflutningar verði gerðir virðisaukaskattskyldir því það þarfnast mun nánari skoðunar. Sem dæmi gæti slík aðgerð haft þau áhrif að fargjöld í flugi hækkuðu,? segir meðal annars í niðurstöðum starfshópsins.

Hópurinn leggur til að framlengd verði heimild til að endurgreiða 2/3 af virðisaukaskatti við innflutning á nýjum hópbifreiðum sem renna á út um næstu áramót en slík heimild hefur verið í lögum síðustu ár. Leggur hópurinn til að áfram verði miðað við hópbifreiðar sem taka 18 farþega eða fleiri og eru búnar aflvélum sem uppfylla skilyrði svonefndra EUROIII mengunar- og útblástursstaðla. Yrði þetta gert í samhengi við aðrar niðurfellingar sem renna eiga út út næstu áramót og þess er getið að þessi niðurfelling hafi haft jákvæð áhrif.

Starfshópinn skipuðu Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneyti, sem var formaður hans, Ingvi Már Pálsson frá fjármálaráðuneytinu og Þorleifur Þór Jónsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar. Rúnar Guðjónsson, viðskiptafræðingur í samgönguráðuneytinu, var starfsmaður hópsins.

Skoða skýrslu um könnun á rekstrarumhverfi hópbifreiða (Word)

 


Athugasemdir