Fara í efni

Kínverskir ferðamenn á Íslandi

Við Skógafoss. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Við Skógafoss. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Í ljósi fregna af takmörkun á ferðalögum Kínverja er eðlilegt að spurningar vakni um áhrif þess á íslenska ferðaþjónustu. Þess ber að geta að Ferðamálastofa fylgist vel með framvindu kórónaveirunnar og er í nánu sambandi við sóttvarnalækni varðandi upplýsingar sem miðla þarf áfram til ferðaþjónustunnar.

Um 7% ferðamanna

Kínverjum sem ferðast til Íslands hefur fjölgað á síðustu árum og voru þeir um 7% ferðamanna sem komu til landsins í fyrra, samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia á Keflavíkurflugvelli, eða 139 þúsund. Af þeim kom um 71% frá meginlandi Kína en 29% frá Hong Kong og Taívan.

Heimsóknir Kínverja voru fæstar í apríl og maí en dreifast annars tiltölulega jafnt yfir árið, sem gerir þá að mikilvægum viðskiptavinum utan háannar. Á árinu 2018 dvöldu Kínverjar að jafnaði 7,2 nætur að sumri og 6,6 að vetri.

Dregur úr vægi pakkaferða

Líkt og fram hefur komið hafa kínversk stjórnvöld nú bannað ferðir frá landinu í skipulögðum hópferðum. Landamærarannsókn Ferðamálastofu leiðir í ljós að hlutfall þeirra sem nýta sér pakkaferðir dregst saman um tæp 12% prósentustig á milli áranna 2018 og 2019, fer úr 67,4% í 55,5% Vægi pakkaferða fer þannig hratt minnkandi en ferðalög fólks á eigin vegum vaxa að sama skapi.

Að uppistöðu ungt fólk

Kínverskir ferðamenn á Íslandi eru að uppistöðu til ungt fólk og var 76% þeirra undir 35 ára aldri á árinu 2018. Þá ber einnig að hafa í huga að nokkur hluti þeirra Kínverja sem hingað ferðast er fólk sem búsett er í Evrópu, t.d. vegna náms. Þannig sýnir Landamærarannsókn Ferðamálastofu að í fyrra voru 12% Kínverskra ferðamanna sem kom til landsins búsett utan Kína og 21,5% á árinu 2018.