Framtíðarsýn ferðaþjónustunnar og Jafnvægisás ferðamála á Samráðsgátt

Á fundi ferðamálaráðherra á dögunum kynnti ráðherra fyrstu drög að stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030.

Samhliða voru kynnt drög að niðurstöðum vinnu við mat á álagi vegna fjölda ferðamanna á Íslandi m.t.t. ástands og getu innviða, umhverfis og samfélags, sem fengið hefur nafnið Jafnvægisás ferðamála.

Nú hafa þessi tvö grunnsjöl, sem saman mynda grunn að stefnumótun til langs tíma fyrir ferðaþjónustuna, verið lögð fram á Samráðsgátt stjórnvalda.

Framtíðarsýnin og leiðarljósið ásamt Jafnvægisás ferðamála eru hugsuð saman sem grunnur að aðgerðabundinni stefnumótun og ákvarðanatöku fyrir ferðaþjónustuna til lengri tíma sem byggir á traustum gögnum sem safnað er með skipulegum og reglubundnum hætti. Hægt er að senda inn athugasemdir til 21. júlí.


 

Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030

Í upphafi árs var skipaður stýrihópur sem hafði það hlutverk að setja fram drög að framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Lögð er fram sú framtíðarsýn að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi á heimsvísu í sjálfbærri þróun. Áhersla er lögð á að íslensk ferðaþjónusta stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld og sé þekkt fyrir gæði, fagmennsku og einstaka upplifun.

Verkefnið var unnið í samvinnu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka ferðaþjónustunnar og Stjórnstöðvar ferðamála.

Jafnvægisás ferðamála

Jafnvægisás ferðamála mun veita yfirlit um ástand efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta og gefa vísbendingar um hvar úrbóta sé þörf. Þannig mun Jafnvægisásinn nýtast sem stjórntæki við mótun framtíðarstefnu Íslands sem áfangastaðar með það að leiðarljósi að stuðla að jafnvægi og sjálfbærri þróun ferðaþjónustu til lengri tíma.


Athugasemdir