Fara í efni

„Íslenskir þjóðstígar" tilnefndir til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands

Íslenskir þjóðstígar
Forsíða skýrslu um verkefnið en hún kom út síðastliðið haust.

Verkefnið „Íslenskir þjóðstígar": Stefnumótun um gönguleiðir á Íslandi“ var á meðal fimm verkefna sem stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna tilnefndi til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands 2015 en verðlaunin voru afhent í dag. Gísli Rafn Guðmundsson vann verkefnið í samstarfi við verkfræðistofuna Eflu og Ferðamálastofu.

Móta stefnu fyrir íslenskt þjóðstígakerfi

Viðfangsefnið var að móta stefnu fyrir íslenskt þjóðstígakerfi (e. National Footpaths) en innan þess yrðu vinsælustu gönguleiðir landsins. Um var að ræða þriggja mánaða rannsóknarverkefni sem sem Gísli Rafn vann við Háskólann í Lundi, undir leiðsögn Ólafs Árnasonar, fagstjóra skipulagsmála hjá Eflu og Björns Jóhannssonar, umhverfisstjóra Ferðamálastofu. Nánar má kynna sér verkefnið hér

Tilnefndur annað árið í röð

Athyglisvert er að Gísli Rafn var nú tilnefndur annað árið í röð. Í fyrra var það fyrir verkefni um Hjólaleiðir á Íslandi, sem Ferðamálastofa kom einnig að, sem hann vann með og Evu Dís Þórðardóttur. Þá báru þau sigur úr býtum. Nýsköpunarverðlaunin í ár komu í hlut Benedikta Atla Jónssonar, nema í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, fyrir verkefni um sjálfvirkt gæðamat augnbotnamynda.