Fara í efni

Íslenskir þjóðstígar - Stefnumótun um gönguleiðir

Íslenskir þjóðstígar - Stefnumótun um gönguleiðir

Út er komin skýrsla um verkefnið Íslenskir þjóðstígar sem unnið var af EFLU verkfræðistofu í samvinnu við Ferðamálastofu og Nýsköpunarsjóð námsmanna. Viðfangsefni verkefnisins var að móta stefnu fyrir íslenskt þjóðstígakerfi (e. National Footpaths) en innan þess yrðu vinsælustu gönguleiðir landsins.

Verkefnið var þriggja mánaða rannsóknarverkefni sem unnið var af Gísla Rafni Guðmundssyni útskriftarnema í borgarhönnun við Háskólann í Lundi. Umsjónarmenn verkefnisins voru Ólafur Árnason fagstjóri skipulagsmála hjá EFLU verkfræðistofu og Björn Jóhannsson umhverfisstjóri Ferðamálastofu.

Mat lagt á 15 leiðir

Í verkefninu er mat lagt á 15 gönguleiðir og gæðastaðall með skýrum viðmiðum þróaður. Meðal þeirra þátta sem mat er lagt á eru heildarlengd, gistimöguleikar, stikur og vörður, upplýsingaskilti, ástand stíga og aðgengi hjálparsveita að leiðinni. Laugavegurinn er þekktasti þjóðstígur landsins og áhyggjur af álagi á honum fara vaxandi. Með því að skilgreina aðrar leiðir sem þjóðstíga má auka athygli á fleiri leiðum og stuðla þannig að dreifðara álagi, og auknum tækifærum í ferðaþjónustu.

Mótuð stefna út frá þjónustu og öryggi

Nýsköpunargildi verkefnisins felst í því að mótuð er stefna út frá þjónustu og öryggi fyrir langar gönguleiðir, leiðir sem eru 2 dagleiðir eða lengri (30 km +). Nýsköpunargildið er ekki síður fólgið í því að sett eru viðmið sem gera það kleift að meta gæði gönguleiða.

Nýtist til stefnumótunar

Verkefnið nýtist stjórnvöldum til stefnumótunar og lagasetningar sem miðar að því að efla og koma á vönduðu og vel skilgreindu gönguleiðakerfi á Íslandi. Verkefnið nýtist einnig Ferðamálastofu og öðrum stofnunum til áframhaldandi kynningar og stefnumótunar fyrir gönguleiðir, en einnig verða niðurstöðurnar meginþungi á ráðstefnu um gönguleiðir sem stefnt er að því að halda í mars 2015.

Þrjár leiðir uppfylla skilyrðin

Niðurstaða verkefnisins er að þrjár leiðir uppfylla nú þegar lágmarksskilyrði íslenskra þjóðstíga, og lítið vantar upp á að fleiri leiðir komist í kerfið. Þá nýtist hluti verkefnisins inn í vinnu við aðgerðaráætlun um sjálfbæra ferðaþjónustu.

Skýrslan í heild:
Íslenskir þjóðstígar - Stefnumótun um gönguleiðir á Íslandi (17 MB)