Fara í efni

Hvert fóru ferðamenn og hvað gerðu þeir?

Í Ásbyrgi. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Í Ásbyrgi. Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Niðurstöður fleiri spurninga úr landamærarannsókn Ferðamálastofu eru nú orðnar aðgengilegar í Mælaborði ferðaþjónustunnar. Meðal þess sem bæst hefur við er hvaða landshlutar og staðir voru heimsóttir og nú er t.d. í fyrsta sinn hægt að skoða hvernig heimsóknir í einstaka landshluta og staði þróast frá mánuði til mánaðar. Einnig hvernig bókunarferlinu var háttað, hvað hafði áhrif á ákvörðun um að heimsækja landið og hvaða afþreying var nýtt. Gagnasöfnun hófst í júlí og liggja niðurstöður fyrir til og með apríl síðastliðnum.

Mikil árstíðasveifla í sumum landshlutum

Nú er í fyrsta sinn hægt að skoða hvernig heimsóknir í einstaka landshluta þróast frá mánuði til mánaðar. Höfuðborgarsvæðið fær til sín svipað hlutfall gesta alla mánuði ársins, eða á bilinu 93-95%. Suðurland heldur einnig sínum hlut nokkuð vel með á bilinu 61-85%. Tiltölulega litlar sveiflur eru á Reykjanesi en í öðrum landshlutum er árstíðasveiflan umtalsvert meiri. Þannig sögðust t.d. 20% ferðamanna hafa heimsótt Vestfirði í júlí en aðeins 2% febrúar og á Norðurlandi fer hlutfallið úr rúmum 53% í ágúst í 9,3% í janúar.

Heimsóknir í einstaka landshluta

Hestaferðir fá hæstu einkunn

Nýting ferðafólks á afþreyingu er annað sem forvitnilegt er að skoða. Algengast er að fólk sé að greiða fyrir heimsókn í sund, náttúrulaug og spa, eða á bilinu 75-84%. Söfn og skoðunarferð með leiðsögn njóta einnig vinsælda allt árið um kring og almennt er ekki að sjá miklar sveiflur í nýtingu fólks á afþreyingu eftir mánuðum, fyrir utan árstíðabundna þætti á borð við norðurljósaferðir.

Fólk er einnig beðið að gefa afþreyingunni einkunn á bilinu 1-10. Þar má sjá að hestaferðir eru að fá hæstu einkunn svarenda, eða rúmlega 9. Norðurljósaferðir fá lægstu einkunnina eða 7,7. Að meðaltali er afþreyingin að fá 8,5 í einkunn.

Styttra bókunarferli á veturna

Þegar fólk er spurt hversu löngu fyrir Íslandsferð ferðin var bókuð má sjá að felið er mun lengra fyrir ferðalög að sumri en vetri. Þannig nefndu tæplega tveir af hverjum þremur að ferðin hefði verið bókuð með meira en fjögurra mánaða fyrirvara í ágúst á meðan hlutfallið fyrir sama svarmöguleika er 31% í janúar.

Ferðasíður, blogg, bæklingar o.þ.h. er það sem fólk notar helst við skipulagningu ferða sinna en þar á eftir koma bókunarsíður, samfélagsmiðlar og leitarvélar. Eftir komuna til landsins eru síðan sömu miðlar í efstu sætum, að bókunarsíðum frátöldum, en í staðinn eru nefndir þættir á þættir á borð við upplýsingamiðstöðvar og önnur bein samskipti.

Náttúran dregur að sem fyrr

Yfir 90% svarenda nefna náttúru landsins eða einstök náttúrufyrirbæri sem ástæðu þess að hugmynd að Íslandsferð kviknaði en náttúrutengd afþreying kemur þar skammt á eftir. Íslensk menning vekur einnig mikinn áhuga og er nefnd í yfir 70% tilvika. Aðrir svarmöguleikar skora einnig hátt, svo sem umfjöllun í fjölmiðlum, meðmæli frá vinum og ættingjum, löngun til að prófa eitthvað nýtt, Ísland sé áfangastaður sem viðkomandi hafi alltaf langað að heimsækja og að Ísland sé öruggt ferðamannaland. Lágt fargjald eða stop-over möguleiki er einnig oft nefnt, sérstaklega yfir vetrartímann.

Ítarlegri þekking á viðhorfi og atferli

Með könnuninni verður til ítarlegri þekking á viðhorfi og atferli erlendra ferðamanna en hingað til hefur legið fyrir. Þar skipta mestu regluleg gagnasöfnun og örari birting á niðurstöðum. Þannig eiga að skapast forsendur til að fylgjast betur með breytingum og þróun og með því mynda kjölfestu til framtíðar í þekkingu á þessari undirstöðuatvinnugrein.

Auk þeirra nýju niðurstaðna sem hér hafa verið kynntar má nefna upplýsingar um dvalarlengd, tegund gistimáta, tilgang ferðar, álit eða ánægju með ýmsa þætti sem snerta ferðalög fólks hér á landi og svokallað meðmælaskor (e. Net Promoter Score - NPS). Um er að ræða alþjóðlegan mælikvarða sem segir til um hversu líklegt eða ólíklegt er að mælt sé með tilteknum áfangastað, vöru eða þjónustu. Allar þessar niðurstöður má kynna sér inn í Mælaborði ferðaþjónustunnar.

Um könnunina

Könnunin er tvískipt, þ.e. við brottför á Keflavíkurflugvelli er spurt nokkurra spurninga og þeir sem samþykkja frekari þátttöku fá síðan sendan hlekk í tölvupósti með spurningalista sem svarað er eftir heimkomu.

Hagstofan kemur einnig að könnuninni og munu þær niðurstöður nýtast í útgáfum Hagstofunnar varðandi þjónustuviðskipti við útlönd, gistinætur og ferðaþjónustureikninga. Könnunin er framkvæmd af danska fyrirtækinu Epinion, sem er alþjóðlegt fyrirtæki í gerð flugvallarkannana. Úrvinnsla gagna er í höndum Ferðamálastofu í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Deloitte.