Fara í efni

Hver verður gæðaáfangastaður Íslands 2013?

Ferðamálastofa kallar eftir umsóknum vegna sjöundu evrópsku EDEN- samkeppninnar um gæðaáfangastaði í Evrópu, European Destinations of Excellence. Yfirskrift þessa árs er „Aðgengilegir áfangastaðir“.

Markmið verkefnisins

  • Að velja gæðaáfangastað þar sem áherslan er á gott aðgengi fyrir alla 
  • Að auka vitund fólks um mikilvægi góðs aðgengis að ferðamannastöðum 
  • Að hvetja til og auðvelda þeim sem ábyrgir eru fyrir viðkomandi svæði að gera úrbætur þar sem því er viðkomið og þeirra er þörf 
  • Að gefa stöðum sem standa sig vel á þessu sviði aukinn sýnileika og meiri stuðning 

Helstu áhersluþættir

Áhersla er fyrst og fremst lögð á góða innviði og gæðaþjónustu fyrir fólk með skerta færni en sjálfbærnisjónarmið ráða einnig miklu í vali á gæðaáfangastað. Mikilvægt er að þau verkefni/staðir sem sótt er um fyrir séu þegar í uppbyggingu og að umsækjendur hafi sýnt frumkvæði á þessu sviði a.m.k. síðustu þrjú árin. Einnig skulu verkefnin miða að því að auka aðgengi fyrir alla innan áfangastaðarins, um leið og hugsunin er að vernda, draga fram og kynna félagsleg, menningarleg, umhverfisleg og söguleg sérkenni þess svæðis sem um ræðir. Verkefnin skulu einnig hafa það að markmiði að minnka árstíðarsveiflu í ferðaþjónustu og laða ferðamenn á nýja áfangastaði.

Mikilvægi góðra upplýsinga

Aðgengi að áninga- og útivistarstöðum er oft á tíðum erfitt, jafnvel ómögulegt stórum hópi fólks. Þegar kemur að því að skipuleggja frí og/eða ferðalög er því er mikilvægt að vita hvar aðgengi er gott, hvort aðbúnaður sé fullnægjandi og við hæfi og hvort möguleiki sé á að taka þátt í þeirri afþreyingu sem í boði er.

Mat á áfangastöðum

Við mat á vali á gæðaáfangastað 2013 verður m.a horft til eftirfarandi þátta:

  • Að aðgengi að og um áfangastaðinn sé auðvelt 
  • Að aðstaða innan áfangastaðarins sé hindranalaus 
  • Að á staðnum sé vel þjálfað starfsfólk sem veitir gæðaþjónustu 
  • Að afþreying sé í boði fyrir alla 
  • Að markaðssetning, bókunarþjónusta, heimasíða og önnur þjónusta gefi sannar og réttar upplýsingar um aðgengilegan ferðamáta, innviði og aðstöðu, þjálfun starfsfólks og afþreyingu fyrir alla. 
  • Að viðskiptavinur með skerta færni viti að hverju hann gengur á hverjum stað og geti undirbúið sig í samræmi við það. 

Hverjir geta sótt um?

Gert er ráð fyrir að sótt sé um fyrir landfræðilega afmörkuð svæði/stað. Umsækjendur geta t.d. verið frjáls félagasamtök, samtök fyrirtækja og/eða félaga (t.d. klasar) í samvinnu við bæjar- og sveitarfélög eða bæjar-og sveitarfélög ein og sér. Það er í öllum tilfellum svæðið sjálft sem hlýtur útnefninguna, þótt umsækjandinn sé t.d. félagasamtök. Ef ekki er um opinberan aðila að ræða er æskilegast að hann vinni náið með viðkomandi bæjar- eða sveitarstjórn að verkefninu.

Hver er ávinningurinn

Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum og í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. EDEN verðlaunin eru bæði viðurkenning á gæðum viðkomandi áfangastaðar og geta haft talsverða þýðingu fyrir markaðssetningu svæðisins.

Annar tilgangur EDEN-verkefnisins er að mynda tengslanet þeirra staða sem öðlast útnefningu bæði nú og fyrri ár. Þannig geta staðir aukið samvinnu sín á milli, skipst á upplýsingum, deilt góðum ráðum o.s.frv., öllum til hagsbóta.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur er til 1. mars 2013. Ekki er um sérstakt umsóknareyðublað að ræða heldur er nauðsynlegt fyrir umsækjendur að kynna sér vel leiðbeiningarnar hér á vefnum. Í þeim er kveðið á um þau efnisatriði sem umsókn þarf að innihalda.

Leiðbeiningar vegna EDEN-umsóknar (PDF)

Tilkynning og tilnefning

Dómnefnd mun velja úr þeim tillögum sem berast. Tilkynnt verður um sigurvegara og hvaða staðir skipa þrjú næstu sætin við sérstaka athöfn í lok apríl. Sigurvegarinn verður síðan fulltrúi Íslands við formlega verðlaunaafhendingu, sem verður í Brussel næsta haust.

Verðlaunahafar þurfa ekki að standa straum af ferðakostnaði, hvorki hér innanlands né til Brussel, í tengslum við verkefnið.

Nánari upplýsingar veitir

Alda Þrastardóttir, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu
alda@ferdamalastofa.is – Sími: 535-5509

Vefsíður með nánari upplýsingum:

EDEN á Facebook
Heimasíða verkefnisins
EDEN á Wikipedia