Hvað gerir Ferðamálastofa?

Hvað gerir Ferðamálastofa?
Logo ferdamalastofa2

 

Í Fréttablaðinu í dag er birt svar Magnúsar Oddssonar ferðamálastjóra við ofangreindri spurningu.  Þar sem umræddu svari er ætlað ákveðið pláss birtist svar ferðamálastjóra ekki í heild eins og spurningunum var svarað.  Því kemur hér nákvæmari útgáfan að svarinu.

Hvað gerir Ferðamálastofa?

Það má segja að hún hafi í aðalatriðum þríþætt hlutverk.

Í fyrsta lagi hefur hún stjórnsýsluhlutverk, sér því m.a. um útgáfu leyfa  vegna ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda, skráningu upplýsingamiðstöðva og bókunarþjónustu svo og eftirlit með þessari starfsemi.

Í öðru lagi þá sér hún um framkvæmd markaðs- og kynningarmála hvað snertir almenna landkynningu og ímyndarsköpun erlendis og innanlands og vegna þess eru t.d. starfræktar  fimm skrifstofur á markaðssvæðunum. Þar eru t.d. vistuð ýmis samstarfsverkefni í kynningarmálum; Iceland Naturally, Cruise Iceland og Ráðstefnuskrifstofa Íslands.

Í þriðja lagi þá sér skrifstofan um framkvæmd ferðamálaáætlunar 2006-2015, sem var samþykkt á Alþingi í fyrra. Þar eru gæðamálin fyrirferðarmikil í víðasta skilningi þess orðs og lögð er áhersla á að tryggja sérstaklega gæði móttökuþáttarins og öryggi gestanna. Ferðamálastofa sér því t.d. um gæðaflokkun ( stjörnugjöf)  gististaða og tjaldsvæða auk þess að nota verulegt fjármagn til að bæta aðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Þannig að Ferðamálastofa reynir með kynningarmálum að hafa áhrif til aukinna umsvifa og svo að tryggja gæði móttökuþáttarins þegar gestirnir sækja okkur heim.

Helstu markmiðin?

Markmiðin eru að sjálfsögðu þau að ná hingað sem mestum gjaldeyristekjum með auknum umsvifum vegna erlenda markaðarins. Takmarkið er að þær tekjur skili sér sem best yfir allt árið og allt land.

Að okkar gestir hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir fari ánægðir og séu sáttir við þau gæði sem þeim eru boðin á ferð um landið; að gæðin séu í samræmi við eða umfram væntingar.

Hver er lykillinn að fjölgun ferðamanna?

Það eru margir samverkandi þættir sem hafa þarna áhrif og ekki hægt að nefna þá alla. Það er t.d. ljóst að aukið framboð samhliða aukinni kynningu leiðir nær alltaf til aukinna umsvifa.

Þetta hefur hvort tveggja gerst undanfarið. Verulega aukið framboð bæði í sætum til landsins og á gistirými og aukin vinna í allri almennri kynningu og kynningu vörunnar.

Mikil áhersla hefur verið á aukna kynningu allt árið til að lengja enn frekar hefðbundinn háannatíma og þar er sífellt að að nást betri árangur.

Loks hefur mikil vinna verið lögð í að auka vöruframboðið um allt land, allt árið sem og gæði þess sem í boði er.

 


Athugasemdir