Fara í efni

Hestamennska á landsbyggðinni

Síðastliðinn föstudag var kynnt skýrsla nefndar sem landbúnaðarráðherra skipaði til að gera úttekt á aðstöðu til hestamennsku á landsbyggðinni og gera tillögur um stuðning ríkissjóðs við uppbyggingu hennar. Fulltrúi Ferðamálaráðs í nefndinni var Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs.

Reiðhús
Meðal þess sem nefndin leggur til er að ríkisvaldið styrki sérstaklega byggingu reiðhúsa á ákveðnum stöðum á landsbyggðinni samkvæmt skilgreiningu nefndarinnar þar um. Er í því sambandi talað um reiðhallir á Akureyri og Fljótsdalshéraði og reiðskemmur í Borgarfirði, Hornafirði, Snæfellsnesi og Ísafirði.

Reiðleiðir
Nefndin leggur til að hætt verði að leggja reiðleiðir meðfram þjóðvegum eftir því sem frekast er kostur. Þess í stað verði þegar hafist handa við, í samstarfi við Landssamband hestamannafélaga (L.H.) og Vegagerðina að leggja reiðleiðir þar sem þær voru áður eftir því sem heimildir og kort mæla fyrir um, eða á nýjum stað, en ekki við þjóðveginn eða á helgunarsvæði hans. Gripið verði til aðgerða til að tryggja lagningu slíkra reiðleiða. Nefndin leggur jafnframt til að um leið og reiðleið er lögð sé þess gætt að nauðsynleg aðstaða sé jafnframt byggð upp eða gert ráð fyrir henni. Þá er gerð tillaga um að sérstaklega verði farið hvernig tengja megi vinsæla staði við stofnleiðir og héraðsleiðir, fornar og nýjar og veittir fjármunir til uppbyggingar slíkra reiðleiða. Nefndin leggur til að framlög til reiðvega af Vegaáætlun verði tvöfölduð. Og jafnframt að ríkisstjórnin samþykki, í eitt sinn, sérstaka fjárveitingu á fjárlögum, umfram tekjur Vegasjóðs sem fjárframlag vegna átaks við gerð reiðleiða og mannvirkja tengdum þeim á landsbyggðinni. Komið verði á fót nefnd skipaðri fulltrúum frá L.H. og Vegagerðinni er geri tillögur að því hvernig sérstöku fjármagni vegna átaks í reiðvegamálum skuli varið.

Knapamerkjakerfið
Nefndin leggur til að ríkisvaldið styðji við uppbyggingu knapamerkjakerfisins. Kannað verði hvort hægt sé að koma slíkum stuðningi að í gegnum hið almenna menntakerfi landsins eða með öðrum hætti eftir því sem best nýtist verkefninu.

Skýrslan í heild sinni er aðgengileg á vef landbúnaðarráðuneytisins