Fara í efni

Heildstæðari mynd af flugumferð

Heildstæðari mynd af flugumferð

 

Mælaborð ferðaþjónustunnar geymir nú upplýsingar um komur og brottfarir til og frá Keflavíkurflugvelli frá ársbyrjun 2018. Þessi mikilvægu gögn flugumferðar voru fengin hjá ferðafjölmiðlinum Túrista og fæst nú loks í fyrsta skipti heildstæð mynd yfir hvaða flugfélög fljúga til Íslands, tíðni flugferða, fjöldi flugleggja og fleira.

Verðmæt gögn en takmarkað aðgengi

Gögn og upplýsingar sem verða til á Keflavíkurflugvelli eru mikilvæg verðmæti fyrir íslenska ferðaþjónustu og er Ísland í algerri sérstöðu þegar kemur að notandagildi þeirra. T.d. hefur verið sýnt fram á að fjöldi ferðamanna frá einu landi helst í hendur við framboð fluga frá sama landi og er því nauðsynlegt að upplýsingar um staðfestar og áætlaðar brottfarir og komur á Keflavíkurflugvelli sé betur niðurbrotið, uppfært og gefið út með reglubundnum hætti. Þannig væri hægt að átta sig betur á framboði. Aðgengið að þessum gögnum hefur verið af skornum skammti og óskaði Ferðamálastofa eftir þessum upplýsingum frá Isavia seint árið 2017 og er ekki kominn niðurstaða í þá fyrirspurn.

Gögn um flugumferð frá Túrista

Í liðinni viku byrjaði Mælaborð ferðaþjónustunnar að birta tölur um yfirlit flugumferðar um Keflavíkurflugvöll, líkt og fram kom hér á vefnum. Tölurnar eru sóttar á vef Isavia en þar sem ekki hefur reynst hægt að fá tölur aftur í tímann frá Isavia var leitað til ferðafjölmiðilsins Túrista sem brást vel við og afhenti Ferðamálastofu gögn fyrir allt síðasta ár.

Daglegar talningar frá 2011

„Ég hef allt frá árinu 2011 gert daglegar talningar á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli og birt mánaðarlega samantekt af fjölda flugferða. Lengst af hef ég sótt gögnin handvirkt inn á heimasíðu Keflavíkurflugvallar á hverjum einasta degi og það hefur ekki alltaf verið einfalt að koma því við,“ segir Kristján Sigurjónsson, útgefandi Túrista. 

Hann bætir við að núna sé hins vegar hægt að sækja þetta rafrænt með einföldum forritum og hann fagni því að Ferðamálastofa hafi tekið við að miðla þessum göngum á Mælaborði ferðaþjónustunnar. „Af þeim sökum hef ég fært þeim öll mín skjöl fyrir síðasta ár og hlakka til að sjá þau birtast á Mælaborðinu,“ segir Kristján.

Vantar fyllri upplýsingar

Kristján bendir á að eftir standi þó að þessar upplýsingar veita takmarkaða sýn á farþegaflug til landsins. „Því þó að við þekkjum fjölda flugferða héðan þá vitum við ekkert um hversu margir farþegarnir eru á ákveðnum flugleiðum. Þess háttar upplýsingar veita flugmálayfirvöld víða um heim með einum eða öðrum hætti en ekki þau íslensku. Það er miður fyrir íslenska ferðaþjónustu sem á allt sitt undir fluginu og því mikilvægt að fá sem bestar upplýsingar um það. Ég kærði þessa afstöðu Isavia til úrskurðarnefndar upplýsingamála fyrir 8 mánuðum síðan en er ennþá að bíða eftir að mál mitt verði tekið fyrir,“ segir Kristján.