Fara í efni

Hefja á endurskoðun ferðamálaáætlunar

FolkundirKletti
FolkundirKletti

Ákveðið hefur verið að hefja endurskoðun á ferðamálaáætlun 2006 til 2015, nokkru fyrr en áætlað var. Gert var ráð fyrir því að endurskoðunin færi fram fyrir árslok 2009 en þar sem vel hefur gengið að hrinda verkefnum áætlunarinnar í framkvæmd hefur samgönguráðherra ákveðið að ráðist verði í endurskoðunina fyrr. Frá þessu er greint á vef samgönguráðuneytisins.

Áætlunin var samþykkt á Alþingi á vordögum 2005. Í stýrihópi sem vann að gerð áætlunarinnar voru Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, og Magnús Oddsson ferðamálastjóri, sem jafnframt var formaður hópsins. Samgönguráðherra hefur ákveðið sömu skipan stýrihópsins.

Á vef samgönguráðuneytisins kemur fram að starfshópnum er falið að fara yfir það sem þegar hefur verið gert, meta gæði þeirrar vinnu, hvað megi betur fara og hverju nauðsynlegt sé að bæta við. Breytingar á lagaumhverfi verði hafðar til hliðsjónar sem og samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun samgönguráðherra, en samkvæmt þeim er unnið að fjölmörgum þáttum er varða framþróun ferðaþjónustu á Íslandi. Nauðsynlegt er að meta kostnað við framkvæmd endurskoðaðrar ferðamálaáætlunar eins nákvæmlega og við verður komið.

Endurskoðunin mun hefjast fljótlega og verður kynnt rækilega opinberlega og á meðal hagsmunasamtaka. Endurskoðuð áætlun verði lögð fyrir nýtt þing á hausti komanda, segir í umræddri frétt.