Fara í efni

Greining á aðferðum við fjármögnun og aðgangsstýringu á ferðamannastöðum

© arctic-images.com
© arctic-images.com

Ferðamálastjóri lagði til við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið nýverið að Ferðamálastofu yrði falið að láta taka saman greinargerð um mögulegar gjaldtökuleiðir til að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða. 

Leggja fram heildstæða tillögu

Markmiðið er að hægt verði að leggja fram heildstæða tillögu í þessum efnum. Samið hefur verið við ráðgjafafyrirtækið Alta um að vinna verkið. Það er þegar komið af stað og er kapp lagt á að ljúka því sem fyrst, í ljósi vaxandi umræðu og nauðsyn á aðgerðum í þessum efnum. Þó er ljóst að vinnan mun taka einhverjar vikur.

Yfirlit um gjaldtöku í öðrum löndum

Byrjað verður á að fá yfirlit um fyrirkomulag gjaldtöku í nokkrum löndum. Tilgangurinn er annars vegar sá að finna fjölbreytileg fordæmi sem reynsla er af og hins vegar að fá mynd af því hvaða fyrirkomulag er
algengast í þeim löndum sem við keppum við um ferðamenn. Ferðamálastofa óskar jafnframt eftir því að
ályktanir verði dregnar af yfirlitinu um það hvaða fyrirkomulag gjaldtöku gæti hentað best á Íslandi.

Samráð við hagsmunaaðila

Áhersla er lögð á að verkið verði unnið að höfðu samráði við hagsmunaaðila en afar mikilvægt er að þekking og sjónarmið þeirra skili sér inn í þessa vinnu.