Fara í efni

Gott aðgengi, fræðslu- og hvatningarverkefni - Nýtt verkfæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki

Gott aðgengi ráðstefna

Um heim allan hafa milljónir manna áhuga á því að ferðast, hafa bæði tíma og fjármuni til þess en halda sig heima vegna þess að aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða er víða ábótavant.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) búa 15% jarðarbúa (um einn milljarður manna) við einhvers konar fötlun og hafa margir þeirra sérstakar þarfir vegna aðgengis að þjónustu. Að tryggja aðgengi fyrir alla að aðstöðu og þjónustu ætti því að vera hluti af ábyrgri og sjálfbærri starfsemi hvers fyrirtækis. En aðgengi fyrir alla er ekki aðeins mannréttindi. Það er einnig viðskiptatækifæri fyrir áfangastaði og fyrirtæki að geta tekið vel á móti öllum gestum, hvort sem þeir eru fatlaðir, hreyfihamlaðir, aldraðir eða með aðrar sérstakar þarfir.

Verkefninu Góðu aðgengi er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum að taka á móti fötluðum einstaklingum, á öruggan og ábyrgan hátt, þannig að þjónustan sé í sem bestu samræmi við þarfir þessa stóra markhóps. Gott aðgengi er samstarfsverkefni Ferðamálastofu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Sjálfsbjargar og ÖBÍ réttindasamtaka. Verkefnið sem er í formi sjálfsmats byggir að stærstum hluta á byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem hefur það m.a. að markmiði að tryggja aðgengi fyrir alla.

Sjálfsmatið tekur á öllum þáttum starfseminnar t.d. þjálfun starfsfólks, aðstöðu innan og utandyra auk búnaðar sem þarf að vera til staðar.

Þau fyrirtæki sem telja sig uppfylla settar kröfur um aðgengismál verða auðkennd sérstaklega í gagnagrunni Ferðamálastofu sem er nýttur víða til upplýsingagjafar um ferðaþjónustuaðila hér á landi.

Til að byrja með eru í boði þrjú mismunandi merki; eitt sem táknar aðgengi fyrir fatlaða (hreyfihamlaða), annað fyrir sjónskerta og blinda og það þriðja fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa.

Birting merkjanna, t.d. á vef fyrirtækisins, er yfirlýsing eða loforð til viðskiptavina um að aðgengi fyrir fatlaða sé fullnægjandi hjá fyrirtækinu.

Auk sjálfsmatsins hefur verið útbúið fræðsluefni sem nýtist stjórnendum og framlínustarfsfólki til að auðvelda þeim að þjónusta þennan stóra hóp með sem bestum hætti. Í upphafi er verkefnið ætlað gististöðum, veitingastöðum, bað- og sundstöðum, ráðstefnuaðstöðu og söfnum. Stefnt er á að ferðaþjónustufyrirtæki í annars konar starfsemi geti tekið þátt síðar.

Til að geta tekið þátt þurfa fyrirtæki að vera skráð í gagnagrunn Ferðamálastofu um ferðaþjónustuaðila. Áður en hafist er handa er mikilvægt að kynna sér sjálfsmatið vandlega ásamt leiðbeiningariti um gott aðgengi í ferðaþjónustu, meta núverandi aðstöðu innan fyrirtækisins, hvað þarfnast úrbóta og hvað þurfi að gera til að bæta það sem fyrir er.

Kynna sér verkefnið


Upptaka frá málstofu