Fara í efni

Gistinóttum fjölgar um 8,3% milli ára

gisiting 2011
gisiting 2011

Hagstofan hefur gefið út Gistiskýrslur 2011 þar sem birtar eru niðurstöður um gistináttatalningu fyrir allar tegundir gististaða í fyrra.

Þjóðverjar með flestar nætur
Samkvæmt þeim voru gistinætur rúmar 3,2 milljónir árið 2011 og fjölgaði um 8,3% frá fyrra ári. Erlendir ríkisborgarar gistu flestar nætur, þ.e. 75% af heildarfjölda gistinátta, og fjölgaði um 14% milli ára. Gistinóttum Íslendinga fækkaði hinsvegar um 6%. Eins og mörg undanfarin ár gistu Þjóðverjar hér flestar nætur, þá Bretar og svo Bandaríkjamenn. Gistinóttum Bandaríkjamanna fjölgaði þó hlutfallslega mest milli ára eða um tæp 64%. Næstmest fjölgaði gistinóttum Asíubúa annarra en Japana og Kínverja (51%), þá Kanadamanna (50%) og loks Kínverja (45%). Gistinóttum Austurríkismanna fækkaði hlutfallslega mest eða um 22%, Dana um 5% og Belga 4%.

Skipting milli tegunda gistingar
Flestar gistinætur voru á hótelum og gistiheimilum (70%), á tjaldsvæðum 15% og 6% á farfuglaheimilum. Gistinóttum fjölgaði milli ára á öllum tegundum gististaða nema svefnpokagististöðum og tjaldsvæðum.

Þróun innan landshluta
Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, en einnig varð nokkur fjölgun á Norðurlandi vestra, Suðurlandi og Vesturlandi. Á Austurlandi var fjöldi gistinátta svipaður milli ára. Gistinóttum fækkaði hins vegar á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra.

Rannsókn Hagstofunnar tekur til allrar seldrar gistiþjónustu að undanskildum orlofshúsum félagasamtaka, stéttar- og starfsmannafélaga. Gistináttatalning Hagstofunnar er þýðisrannsókn og árið 2011 var leitað eftir upplýsingum frá 828 gististöðum. Rannsóknin nær til allra gististaða og er ekki tekið tillit til þess hvort þeir hafi gistileyfi. Erfitt getur verið að finna alla þá aðila sem veita gistiþjónustu, sérstaklega þegar staðir eru ekki með tilskilin leyfi. Heimtur voru almennt góðar hjá stærri gististöðum en lakari hjá smærri aðilum. Yfirleitt liggja fyrir góðar upplýsingar um gistirými sem nýtist til áætlunar á gistinóttum hjá þeim stöðum sem ekki hafa skilað inn gögnum. Það er mat Hagstofunnar að þeir gististaðir sem gætu vantað í útgefnar tölur séu smáir heimagististaðir sem leigja út fá herbergi óreglulega yfir árið. Vægi þessara staða er lítið og hafa þeir óveruleg áhrif á heildarniðurstöður, árið 2011 var gögnum safnað frá 153 heimagististöðum og vega gistinætur þeirra 2% af heildarfjölda gistinátta árið 2011.

Gististiskýrslur 2011 eru aðgengilegar á vef Hagstofunnar:
Gistiskýrslur 2011