Fara í efni

Gestanauð eða fagnaðarfundir?

Verðlaunin afhent.
Verðlaunin afhent.

Í tengslum við aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar á dögunum voru verðlaun Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RMF), fyrir lokaverkefni um ferðamál, veitt í áttunda sinn.

Viðhorf Vopnfirðinga til áhrifa ferðaþjónustu

Verðlaunin nema 100.000 krónanum og eru veitt fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Niðurstaða dómnefndar var að verðlaunin í ár hljóti ritgerð Berghildar Fanneyjar Hauksdóttur um; Gestanauð eða fagnaðarfundir? Viðhorf heimafólks til samfélagslegra áhrifa ferðaþjónustu í Vopnafirði. Um er að ræða BA ritgerð frá Háskólanum á Hólum – Hólaskóla en Guðrún Þóra Gunnarsdóttir leiðbeindi.

Umsögn dómnefndar

Í umsögn dómnefndar segir m.a.: „Í verkefni sínu fjallar Berghildur um niðurstöður ítarlegrar viðhorfskönnunar meðal slembiúrtaks allra skráðra íbúa í Vopnafirði á aldrinum 18-65 ára. Hún kannaði viðhorf heimafólks til ferðaþjónustu og hvað það telji henta best sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að viðhorf heimafólks í Vopnafirði til ferðaþjónustu sé mjög jákvætt og vill heimafólk gjarnan fjölga ferðamönnum á svæðinu og telur atvinnugreinina mikilvæga fyrir Vopnafjörð. Skýrt kom fram að íbúar vilja fá að hafa áhrif á hvaða auðlindir samfélagsins eru nýttar til ferðaþjónustu og hvernig. Svarendur töldu sögu og menningararfleið Vopnafjarðar bestan kosta sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Næst besta kost töldu þeir afþreyingu tengda náttúru.

Mikilvægt er að kanna hug heimafólks til uppbyggingar ferðaþjónustu þar sem öll sjálfbær uppbygging greinarinnar byggir á að viðhorf þeirra sé jákvætt og trú á að greinin geti skapað tekjur en jafnframt verið jákvætt afl í þróun mannlífs og samfélags. Niðurstöður svipaðar þeim sem Berghildur hefur fengið eru mikilvægar upplýsingar sem nýta má sem grunn og leiðarljós við skipulagningu og stefnumótun ferðaþjónustu í Vopnafirði en einnig víðar um land, á jaðarsvæðum þar sem horft er með væntingum til ferðaþjónustu.

Dómnefndin telur að þetta verkefni sé mikilvægt innlegg í umræðu um ferðaþjónustu sem drifkraft efnahags og samfélags í dreifðum byggðum og smærri bæjum. Byggðaþróun á Íslandi er í mikilli gerjun um þessar mundir og staðir víða um land horfa fram á miklar breytingar á sínum högum. Þeir sem eiga undir högg að sækja horfa til ferðaþjónustu og vísa gjarnan á þá miklu fjölgun gesta sem fer um Leifsstöð. Augljóst er að þessarar aukningar verður vart um allt land, í mismiklum mæli þó. Því er aðkallandi áður en fjöldinn kemur að kanna hug heimafólks til uppbyggingar ferðaþjónustu og hvaða auðlindir eigi að nýta í þágu greinarinnar. Þannig er líklegra að greinin byggist upp á forsendum heimafólks, sem aftur er forsenda sjálfbærni eins og hún er skilgreind af Alþjóðlegu ferðamálasamtökunum.

Verkefni Berghildar er vandað og vel gert. Rannsóknin sem að baki liggur er unnin samviskusamlega og af metnaði og fagmennsku. Vinna hennar ætti að verða öðrum til eftirbreytni og hún er verðugur handhafi lokaverkefnisverðlauna Rannsóknamiðstöðvar ferðamála árið 2012.

Ritgerðina er hægt að skoða á Landsbóksafni eða gegnum Skemmuna (skemman.is), hér: http://hdl.handle.net/1946/13391

Önnur tilnefnd verkefni

Verkefni sem til greina komu voru tilnefnd af kennurum þeirra þriggja opinberu skóla sem sinna kennslu og rannsóknum í ferðamálum, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Hólaskóla. Þau gátu verið lokaverkefni úr grunnnámi eða framhaldsstigi. Um þessar mundir eru að eiga sér stað nokkrar breytingar á kennslu ferðamálafræði. Þannig eru lokaritgerðir ekki lengur skylda í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands og nú er aðeins um val að ræða. Þessi breyting varð 2010 og nú eru síðustu nemendur í grunnnámi að ljúka skylduverkefnum frá HÍ. Af 46 nemendum sem útskrifuðust 2012 skrifuðu 16 ekki lokaritgerð. Hjá HÍ snúast nú ritgerðir í ferðamálafræði um viðameiri rannsóknaverkefni á meistarastigi. Háskólinn á Hólum hefur haldið sig við lokaverkefni á grunnnámi, en þar er um að ræða tvenns konar ritgerðir, annarsvegar hina hefðbundnu fræðilegu ritgerð og hinsvegar verkefni þar sem áherslan er á hagnýta útfærslu. Þótt hæfniviðmiðin hjá Hólaskóla séu þannig ólík er einingafjöldinn hinn sami.

Þessar ólíku áherslur skólanna má sjá í þeim verkefnum sem tilnefnd eru til verðlaunanna í ár. Taflan hér að neðan sýnir þau verkefni sem til greina komu fyrir dómnefnd sem stjórn RMF skipar.

lokaverðlaun 2013