Fara í efni

Fyrstu fyrirtækin fá VAKANN

VaKAFYRIRTÆKI
VaKAFYRIRTÆKI

Í dag var því fagnað að fyrstu íslensku fyrirtækin hafa lokið innleiðingu á VAKANUM, nýju gæða- og umhverfiskerfi fyrir aðila í ferðaþjónustu. Fyrirtækin eru öll umsvifamikil á sviði íslenskrar ferðaþjónustu en þau eru: Elding hvalaskoðun, Bílaleiga Akureyrar – Höldur, Ferðaskrifstofan Atlantik og Iceland Excursions Allrahanda.

Auka öryggi og efla gæði 
VAKINN felur í sér viðameiri úttekt á starfsemi íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu en áður hefur þekkst hér á landi. Kerfinu er ætlað að auka öryggi og efla gæði  og fagmennsku á sviði ferðaþjónustu.  Þau fyrirtæki sem óska eftir þátttöku í VAKANUM þurfa að uppfylla auknar kröfur um gæði og öryggi, jafnt fyrir starfsfólk sem og viðskiptavini. Auk þess tekur VAKINN m.a. til aðbúnaðar, þjónustu við ferðamenn, þjálfun starfsfólks og umgengni við náttúruna svo fátt eitt sé nefnt.

Að nýsjálenskri fyrirmynd
„Vinna við undirbúning VAKANS hófst fyrir alvöru árið 2008 þegar Iðnaðarráðuneytið fól Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna að gerð gæðakerfis. Óháð ráðgjafafyrirtæki var fengið til þess að taka út gæðakerfi víðs vegar um heim og niðurstaðan varð sú að byggja á nýsjálenska kerfinu Qualmark. Það hefur nú verið staðfært og aðlagað að íslenskum aðstæðum og fengið nafnið VAKINN“, segir Ólöf  Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.

Skýrari stefna og aukin færni
Með innleiðingu VAKANS munu aðilar í ferðaþjónustu geta markað sér skýrari stefnu og aukið færni sína við reksturinn. Þeir munu bæta öryggi og velferð gesta sinna sem og starfsmanna, auk þess sem þeir taka þátt í því að auka trúverðugleika íslenskrar ferðaþjónustu í heild. Verkefnið hefur verið unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálasamtök Íslands og Nýsköpunarmiðstöð. Þannig hefur skapast breið samstaða innan ferðaþjónustunnar um þennan mikilvæga málaflokk.

Tvíþætt gæðakerfi og umhverfisviðmið í kaupbæti
Gæðakerfi VAKANS er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða gæðaúttekt fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu og hins vegar stjörnuflokkun fyrir gististaði, svo sem hótel, gistiheimili, orlofshús, tjaldsvæði og fleira. Sá hluti verður innleiddur á næsta ári. Umhverfiskerfi VAKANS stendur öllum þátttakendum til boða endurgjaldslaust. Elding hvalaskoðun, Bílaleiga Akureyrar – Höldur, og Iceland Excursions Allrahanda sem eru þátttakendur í  gæða- og umhverfiskerfi VAKANS og Ferðaskrifstofan Atlantik er þátttakandi í gæðakerfi VAKANS.   


Frá afhendingu viðurkenninganna í dag. Talið frá vinstri: Steingrímur Birgisson, Bílaleiga Akureyrar – Höldur; Ólafía Sveinsdóttir, Ferðaskrifstofan Atlantik; Rannveig Grétarsdóttir, Elding hvalaskoðun; Rúnar Garðarsson, Iceland Excursions Allrahanda og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.

 Allar upplýsingar má finna á www.vakinn.is

Nánari upplýsingar veitir Áslaug Briem, gæðafulltrúi Vakans, sími: 535 5500 aslaug@vakinn.is