Fara í efni

Frumvarp um náttúrupassa lagt fram

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti í morgun frumvarp til laga um náttúrupassa. Markmið frumvarpsins er að afla nægjanlegs fjármagns til að stórauka nauðsynlega uppbyggingu, viðhald og verndun á ferðamannastöðum og efla um leið öryggismál ferðamanna.

Hvaða staðir?

Allir ferðamannastaðir í eigu eða umsjón opinberra aðila munu sjálfkrafa eiga aðild að náttúrupassa. Jafnframt geta einkaaðilar sótt um aðild að náttúrupassanum og er þeim þá óheimilt að rukka aukalega sérstakt aðgangsgjald. Gert er ráð fyrir að Náttúrupassinn taki gildi 1. september 2015.

Verð og umsjón

Verð fyrir náttúrupassann verður 1.500 kr. og gildir hann í þrjú ár. Einstaklingar undir 18 ára aldri þurfa ekki að hafa náttúrupassa. Umsjón eftirlits með náttúrupassa verður í höndum Ferðamálastofu og fær hún heimildir til að sekta þá sem ekki hafa greitt gjald fyrir náttúrupassa.

Áætlaðar tekjur

Áætlaðar tekjur fyrstu þrjú árin af náttúrupassanum nema um 4,5-5,2 milljörðum króna og reiknað er með að ríflega 85% komi frá erlendum ferðamönnum.

Ráðstöfun fjármuna

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur umsjón með útdeilingu fjármuna og er mælt fyrir um að 82,5% af tekjum sjóðsins verði varið til uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða sem eiga aðild að náttúrupassa og skal við þá úthlutun taka mið af verkefnaáætlun sem unnin er á grundvelli laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn. 10% af tekjum sjóðsins skal varið til framkvæmda á ferðamannastöðum sem ekki eiga aðild að náttúrupassa gegn 50% mótframlagi eigenda. Um 7,5% eru eyrnamerkt málefnum sem tengjast öryggi ferðamanna. Að hámarki 3,5% skal varið í umsýslu náttúrpassans.

Nánari upplýsingar

Nánar i upplýsingar eru á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis en þar hafa m.a. verið teknar saman spurningar og svör um náttúrupassann.

Fylgjast með ferli málsins á Alþingi