Fara í efni

Frumvarp um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Framkvæmdasjóður
Framkvæmdasjóður

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Tilgangurinn með stofnun sjóðsins er að stórbæta aðstöðu á helstu ferðamannastöðum landsins en þeir eru margir farnir að láta verulega á sjá. Þá er ætlunin að tryggja betur öryggi ferðamanna, t.d. með varúðarmerkingum, handriðum, stígum, pöllum og öryggisgirðingum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verður lykilfjármögnunaraðili framkvæmda á ferðamannastöðum og með sjóðnum munu aukast möguleikar á að byggja upp nýja áfangastaði og dreifa þannig ferðamönnum betur um landið, í samræmi við stefnumörkun í ferðamálum.

Verkefni Ferðamálastofu
Frumvarpið gerir ráð fyrir að varsla sjóðsins og framkvæmd úthlutana verði verkefni Ferðamálastofu en umhverfismál eru meðal lögbundinna verkefna stofnunarinnar og vinnur hún að samræmingu umhverfis- og fræðslumála og umsjón með uppbyggingu og þróun ferðamannasvæða. Þá sinnir Ferðamálastofa styrkveitingum til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum.

Frumvarp um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða var samið samhliða frumvarpi um farþegagjald og gistináttagjald sem fjármálaráðherra mun mæla fyrir á Alþingi innan skamms.

Árlegar tekjur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru ákvarðaðar í fjárlögum en miðað skal við að framlagið endurspegli 60% þeirra 400 milljóna sem ríkissjóður mun hafa af farþegagjaldi og gistináttagjaldi og verði því eigi minna en 240 milljónir króna sem sjóðurinn hefur árlega til ráðstöfunar. Þeim hluta gjaldsins sem ekki rennur í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða mun verða ráðstafað af fjárlögum til þjóðgarða og friðlýstra svæða.

 Skoða frumvarp um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða