Fara í efni

Fróðlegur samanburður á gistinóttum og fjölda ferðamanna

Aðalfundur Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins
Aðalfundur Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins

Nú er aðgengileg hér á vefnum fróðleg samantekt um fjölda gistinátta og ferðamanna síðastliðin fimm ár. Það eru einmitt þessir tveir mælikvarðar sem gefa hvað besta mynd af samsetningu erlendra gesta á Íslandi. Framsetningin er með myndrænum hætti og því einkar auðvelt að glöggva sig á öllum helstu stærðum.

Nær til um 98% gesta
Tímabilið sem tekið er fyrir nær frá árinu 1998 til 2002, að árinu 2001 frátöldu. Annars vegar er byggt á gistináttatalningum Hagstofunnar og hins vegar á ferðamannatalningum Útlendingaeftirlitsins og Ferðamálaráðs við brottför úr landinu. Auk þess er byggt á upplýsingum frá Austfari hf. um fjölda farþega með Norrænu. Áætlað er að þessar talningar nái yfir 98 prósent erlendra gesta.

Ágæt reynsla komin á talningar Ferðamálaráðs
Ferðamannatalningar voru í höndum Útlendingaeftirlitsins til ársloka 2000, lágu þá niðri í rúmt ár en frá því í febrúar 2002 hefur Ferðamálaráð séð um þær við brottför úr landinu. Ágæt reynsla er nú komin á þá talningu og þótt aðferðin við hana sé með öðru sniði en áður eru tölurnar engu að síður sambærilegar við eldri tölur Útlendingaeftirlitsins.
Við samaburðinn er tekið mið af þeirri skiptingu á árinu sem viðhöfð er hjá Hagstofunni en í gistináttaskýrslum er ferðaárinu jafnan skipt í þrjú tímabil, janúar-apríl, maí-ágúst og september-desember.

Fleira en höfðatalan skiptir máli
Oddný Þóra Óladóttir, verkefnastjóri hjá Ferðamálaráði, vann samantektina og segir hún fróðlegt að skoða samhengið á milli þessara tveggja helstu mælikvarða íslenskrar ferðaþjónustu. ,,Til að við getum áttað okkur á umfangi ferðamennsku í landinu verðum við að huga að öllum fyrirliggjandi talnagögnum. Það er ekki nóg að skoða fjölda ferðamanna, heldur verður að huga að því hve lengi ferðamenn dvelja, á hvaða árstíma þeir koma, í hvers konar gistingu þeir eru, hvar á landinu þeir dvelja, hve miklu þeir eyða og í hvað o.s.frv. til að átta okkur sem best á samsetningu þeirra. Í þessari samantekt er fjöldi ferðamanna skoðaður með hliðsjón af gistinóttum samkvæmt talningum Hagstofunnar. Það verður þó að hafa í huga að þessar talningar ná ekki yfir allar gistinætur erlendra gesta á Íslandi. Þær, í samhengi við fjölda ferðamanna, gefa þó góða vísbendingu um samspilið þarna á milli," segir Oddný.


Samanburðurinn er settur fram í Excel-skjali sem inniheldur nokkur vinnublöð (Sheet).

Skoða Excel-skjal