Fara í efni

Framkvæmdir í Neðri-Hveradölum bæta aðgengi og auka öryggi

Styrkur Framkvæmdasjós var m.a. nýttur fyrir upplý
Styrkur Framkvæmdasjós var m.a. nýttur fyrir upplý

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrkti á árinu samtökin Kerlingarfjallavini vegna framkvæmda í Neðri –Hveradölum í Kerlingarfjöllum sem þegar hafa skilað verulegum árangri.

Öryggi og uppbygging

Styrkur Framkvæmdasjóðsins var veittur til uppsetningu öryggisgirðinga, smíði á tröppum og uppsetningu aðvörunarskilta við hverina í Neðri Hveradölum og í Hverabotni. Markmið styrkveitingar var að auka öryggi ferðamanna og styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu á þessu svæði.

Ásýnd svæðisins batnar

Svæðið hafði þegar látið á sjá vegna umferðar ferðafólks en með tröppum og haldreipum verður það síður útsparkað og ferðamenn halda sig frekar á stígum. Slys höfðu orðið á svæðinu þar sem hverirnir í Neðri Hveradölum og í Hverabotni eru alveg við vinsælar gönguleiðir og fólk steig gegn um þunna leirskurn. Heildarmynd og ásýnd svæðisins batnar einnig með því að setja tröppur í brekkur, í stað þess að þær séu útsparkaðar eftir ferðafólk sem reynir að fóta sig í hálum leirnum.

Bitar í þrjár göngubrýr

Í liðinni viku var mikið um að vera á svæðinu í Neðri-Hveradölum en þá var þyrla Norðurflugs notuð til þess að hífa bita í þrjár nýjar göngubrýr yfir ánna. Munu þær gera svæðið betur í stakk búið til að taka á móti fleira ferðafólki.

Um Kerlingafjallavini

Kerlingarfjallavinir eru frjáls samtök einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana. Í stjórn eru 5 einstaklingar og ávallt skulu sitja í stjórn einn fulltrúi náttúruverndarsamtaka, einn fulltrúi frá Hrunamannahrepp og einn frá ferðaþjónustuaðilum í Kerlingarfjöllum . Markmið samtakanna er að hlúa að náttúru Kerlingarfjalla og stuðla að því að sem flestir geti notið náttúru svæðisins. Einnig að efla rannsóknir á svæðinu, stuðla uppbyggingu gönguleiða, bæta aðgengi að náttúruperlum og hvetja sjálfboðaliðahópa til þátttöku í ýmsum umhverfisverkefnum á svæðinu.

Þyrla flytur brúarbita í Kerlingarfjöllum

Þyrla var notuð til að flytja brúarbitana og viðkvæmri náttúru þannig hlíft.