Fara í efni

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutar 647 milljónum

Dynjandi
Mynd: Dynjandi er meðal staða sem fá hæstu styrkina nú.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun vorið 2016. Alls eru veittir styrkir til 66 verkefna hringinn í kringum landið en að þessu sinni var sérstaklega horft til öryggismála og miða 37 verkefnanna að því að bæta öryggi á ferðamannastöðum.

Alls nema styrkir til einstakra verkefna tæplega 596 m.kr. en að auki verður 51. m.kr. úthlutað sérstaklega af ráðherra ferðamála til sérstaklega brýnna verkefna vegna öryggis á ferðamannastöðum að tillögu Stjórnstöðvar ferðamála.

Listi yfir styrkþega

Hæstu einstöku styrkirnir eru 30 m.kr. og eru veittir fjórir slíkir; til verkefna við Dynjanda, Geysi, Skaftafell og Dettifoss.

Allar nánari upplýsingar um styrkina á vefsjá

Listi yfir styrkþega sem PDF

Nýjar starfsreglur sjóðsins

Í byrjun árs 2016 gaf ráðherra út nýja reglugerð um starfsreglur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og er þetta í fyrsta skipti sem úthlutun fer fram á grundvelli nýju reglugerðarinnar. Í reglugerðinni er mótframlag til svæða í eigu og umsjón ríkisins fellt niður og mótframlag til svæða í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila er lækkað úr 50% í 20%.

Yfirferð vegna eldri styrkja

Ferðamálastofa vinnur nú að því að fara yfir eldri styrki með það að markmiði að tryggja betri nýtingu fjármuna, en í fyrrgreindri reglugerð voru sett ný ákvæði sem auðvelda Ferðamálastofu að stöðva greiðslur eða afturkalla styrki ef framvinda verkefna er ófullnægjandi. Þá voru einnig sett ákvæði í reglugerðina um að stjórn sjóðsins geti ákveðið að gera ekki tillögu til ráðherra um að veita styrk til tiltekins verkefnis sem uppfyllir að öðru leyti skilyrði sjóðsins. Ástæðan getur verið sú að umsækjandi hafi ekki staðist kröfur sjóðsins við framkvæmd fyrri verkefna eða að stjórn sjóðsins meti það svo að umsækjandi muni ekki ná að nýta umbeðinn styrk vegna annarra verkefna sem hann er þegar með í vinnslu á grundvelli styrkja úr sjóðnum. Miða þessar breytingar að því að tryggja að ekki sé verið að úthluta fjármunum til framkvæmda nema það sé ljóst að styrkþegi geti hafist handa við framkvæmdir.

Nánari upplýsingar

Finna má nánari upplýsingar um úthlutanir úr sjóðnum undanfarin ár í nýútkominni skýrslu ráðherra til Alþingis um stöðu ferðamála og hér á vefnum undir Framkvæmdasjóður Ferðamananstaða / Úthlutaðir styrkir.