Fara í efni

Flokkaðir gististaðir nálgast sjöunda tuginn

Fosshótel Vatnajökull
Fosshótel Vatnajökull

Nýverið fjölgaði um þrjá í hópi þeirra gististaða sem flokkaðir eru með stjörnugjöf. Þetta eru þrjú Fosshótel, þ.e. Fosshótel Vatnajökull í Hornafirði, Fosshótel Reykholt og Fosshótel Suðurgata í Reykjavík.

Með þessum þremur hótelum eru flokkaðir gististaðir orðnir 66 talsins en fyrir nokkru bættist einnig Sveitahótelið í Sveinbjarnargerði við. Flest stærstu hótel landsins eru þegar þátttakendur þannig að um helmingur alls gistirýmis í landinu er nú flokkaður.

Flokkunin hófst árið 2000 og hefur frá upphafi verið í umsjón Ferðamálastofu (áður Ferðamálaráð Íslands). Fullyrða má að flokkunin hafi þegar orðið gistiþjónustu á Íslandi til verulegs framdráttar því um allan heim eru gestir vanir að hafa stjörnugjöf til viðmiðunar þegar þeir velja sér gististað. Reynslan sýnir einnig að flokkun sem þessi hefur í mörgum tilfellum reynst mikilvægt hjálpartæki fyrir gististaði sem vilja bæta þjónustu sína og þannig stuðlar hún að auknum gæðum gistingar hérlendis. Allir gististaðir sem eru með tilskilin leyfi geta óskað eftir því að vera flokkaðir. Þá má nefna að Ferðamálastofa viðurkennir flokkunarkerfi Ferðaþjónusta bænda.
Listi yfir flokkaða gististaði

Mynd: Fosshótel Vatnajökull í Hornafirði.