Fara í efni

Fjórir lykilþættir um framtíð og vöxt ferðaþjónustu

Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson

Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, gaf nýlega út skýrslu sem ber heitið “Analysing Megatrends to Better Shape the Future of Tourism (2018)“. Í skýrslunni er fjallað um leitni og þróun ýmissa grundvallarþátta samfélaga, sem talið er að muni hafa afgerandi áhrif á framtíð og vöxt ferðaþjónustu.

Hér má t.a.m. nefna þætti af efnahags-, félags- og umhverfislegum toga, auk tæknibreytinga, sem leggi grunn að nýjum áskorunum, hættum og tækifærum, sem erfitt getur þó reynst að greina til fulls. Þessar miklu breytingar þróist hægt en um leið og þær hafa náð fótfestu hafi þær djúpstæð og langvarandi áhrif á mannlega breytni, ferla, skynjun og viðhorf um allt umhverfi okkar, m.a. á sviði ferðaþjónustu.

Niðurstaða skýrslunnar er í stuttu máli sú að fjórir áhrifaþættir skipti höfuðmáli sé horft til lengri tíma:

  1. Breytt eftirspurnarmynstur ferðamanna m.a. vegna stærri millistéttar á heimvísu og lýðfræðilegra breytinga.
  2. Aukið mikilvægi sjálfbærrar ferðamensku til að draga úr neikvæðum áhrifum ferðamennsku á umhverfi og samfélög.
  3. Áhrif nýrrar tækni s.s. á grundvelli stafrænna möguleika og sjálfvirkni.
  4. Sjónarmið um hreyfanleika ferðamanna í víðri merkingu s.s. með tilliti til samgangna, öryggismála, landamæravörslu, sjúkdómavarna og náttúruvár.

Í skýrslunni er jafnframt fjallað um ýmsar sviðsmyndir byggt á ofangreindum áhrifaþáttum til að varpa ljósi á áhrif þeirra á þróun eftirspurnar í ferðaþjónustu. Loks er farið er yfir með hvaða hætti stjórnvöld geti undirbúið sig fyrir þær miklu breytingar sem framundan eru s.s. með stefnumótun, lagabreytingum og aðgerðum í því samhengi.