Fara í efni

Fjölmenni á ferðamálaráðstefnu

Um 200 manns sóttu árlega ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands sem að þessu sinni var haldin í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit. Ekki var annað að heyra á gestum en að þeir færu sáttir til síns heima, enda voru mörg fróðleg erindi flutt og fjörugar umræður á köflum.

Aðgerðir skiluðu árangri
Ráðstefnan hófst á ávarpi Einars K. Guðfinnssonar, formanns Ferðamálaráðs Íslands. Þar rakti hann m.a. þá aukningu sem orðið hefur síðustu misseri í komum erlendra ferðamanna hingað til lands og fleiri tölur sem sýna aukin umsvif í ferðamennsku. Fór hann yfir þær skörpu mótvægisaðgerðir sem gripið var til í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001, m.a. stóraukin framlög stjórnvalda til markaðsaðgerða og hvernig þau hafa skilað þeim árangri sem að var stefnt. Formaðurinn kom einnig inn á nýjar aðferðir sem farnar hafa verið við útdeilingu þessara fjármuna og hver framtíðarsýn hans væri í þeim efnum.

Stóraukið framboð
Einar rakti í erindi sínu þá mikla aukningu sem orðið hefur á framboði í ferðaþjónustu, bæði í sætaframboði til landsins og gistirými. " Hin mikla aukning flugsætaframboðs og hótelrýmis hlýtur að vera vísbending um væntingar innan atvinnugreinarinnar um enn frekari sókn inn á erlenda markaði. Möguleikarnir á aukningu hér innanlands eru augljóslega takmarkaðir og því hlýtur útrás - tískuorð íslensks athafnalífs um þessar mundir - að vera svarið. Í því sambandi getum við ekki annað en sett traust okkar á að aukið framboð á hvers konar þjónustu, fjölbreyttari og eftirsóknarverðari vara og öflugt markaðsátak, stutt af hinu opinbera skili okkur áframhaldandi aukningu," sagði Einar meðal annars.

320 milljónir til markaðssóknar
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kom í upphafi ávarps síns inn á þá staðreynd að í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 320 milljónum króna til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu og eru þeir fjármunir enn á ný hrein viðbót við það fé sem Ferðamálaráð hefur úr að spila vegna markaðsstarfs á erlendum vettvangi og þess sem fer til ferðamálasamtaka landshlutanna. Í ljósi góðrar reynslu munu þessir fjármunir fara í sérstakt markaðsátak undir stjórn ferðamálastjóra og forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs. Fór Sturla í stuttu máli yfir hversu mikilvægt er að vanda til framkvæmdarinnar og hafa allar reglur sem skýrastar.

Ný ferðamálaáætlun
Stefnumótun fyrir íslenska ferðaþjónustu var annað megininntak ávarps samgönguráðherra. Fór hann yfir vinnu sem átt hefur sér stað síðustu ár og nýtist í því samhengi, m.a. skýrslur um skýrslunni um menningartengda ferðaþjónustu, skýrslunni um heilsutengda ferðaþjónustu og skýrslunni um Auðlindina Ísland, auk nýrrar skýrslu sem dreift var á ráðstefnunni um framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu þar sem horft er allt til ársins 2030. Greindi ráðherra frá því að hann muni á næstu dögum skipa þriggja manna stýrihóp sem fær það verkefni að fara í gegnum áðurgreinda vinnu og leggja drög að nýrri ferðamálaáætlun. Sturla sag'ist sjá fyrir sér að ferðamálin yrðu í forgrunni í starfi ráðuneytisins á næstu árum og af þeim sökum hafi hann tekið ákvörðun um að setja á laggirnar í fyrsta sinn sérstaka skrifstofu ferðamála í ráðuneytinu.

Markaðssetning Íslands - breyttar áherslur
Meginefni og yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var "Markaðssetning Íslands - breyttar áherslur." Með yfirskriftinni var verið að vísa til þeirrar nýju leiðar sem farin var á þessu ári við nýtingu þess fjármagns sem stjórnvöld ákváðu að verja til markaðssóknar íslenskrar ferðaþjónustu. Framsögu hafði Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands. Í kjölfarið fylgdu pallborðsumræður um málið og eftir þær var opnað fyrir umræður og fyrirspurnir. Eftir kaffihlé voru síðan almennar umræður og afgreiðsla ályktana og var þar samþykkt ályktun tengd hvalveiðum.

Allt inn á vefnum
Líkt og undanfarin ár verða öll erindi og allar umræður frá ráðstefnunni aðgengileg hér á vefnum undir liðnum. Ávörp formanns Ferðamálaráðs og samgönguráðherra eru þegar komin inn og efni mun síðan halda áfram að bætast við á næstunni.