Fara í efni

Fjöldi ferðamanna slær öll fyrri met

Ferðamenn 2010-2016Erlendir ferðamenn hingað til lands sem fóru um Keflavíkurflugvöll voru um 1,77 milljónir á nýliðnu ári eða rúmlega 40% fleiri en árið 2015. Gera má ráð fyrr að tölurnar nái til meira en 98% ferðamanna sem hingað komu. Ótaldir eru þeir sem komu um aðra flugvelli og farþegar Norrænu. Farþegar skemmtiferðaskipa eru skilgreindir sem dagsferðamenn og eru því ekki í þessum tölum.

Aukningin hefur að jafnaði verið 25,4% á milli ára á tímabilinu 2010-2016. Mest var hún, eins og fram hefur komið, á milli tveggja síðustu ára. Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð þannig að inn í tölunum eru erlendir ríkisborgarar búsettir hérlendis.

Fjölgun eftir mánuðum 2016Fjöldamet slegin alla mánuði ársins

Vart þarf að taka fram að ferðamenn hafa aldrei verið fleiri á einu ári og aukningin er hlutfallslega ein sú mesta sem mælst hefur á milli ára frá upphafi mælinga. Veruleg fjölgun var í öllum mánuðum ársins, eins og sést á grafinu hér til hliðar. Aukningin var á bilinu 30-40% fimm mánuði ársins eða í maí, apríl, maí, júní og júlí. Fimm mánuði ársins fór hún síðan yfir 40% en hlutfallslega var hún mest síðla árs eða 76,1% í desember, 61,4% í nóvember og 59,7% í október.

 

 

Fjölmennustu þjóðerninFjölmennustu þjóðernin

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir þeirra sem hingað komu eða 415.287 talsins. Þannig lætur nærri að einn af hverjum fjórum hafi verið Bandaríkjamaður, eða 23,5%. Bretar komu næstir en þeir voru 316.395 og þar á eftir komu Þjóðverjar, 132.789. Næstir komu Frakkar (85.221), Kanadamenn (83.144) og Kínverjar (66.781). Svíar, Norðmenn og Danir komu í næstu sætum þar á eftir, allir um og yfir 50 þúsund hver þjóð. Alls eru taldir sérstaklega ferðamenn af 17 þjóðernum, auk Íslendinga, en þau fjölmennustu má sjá á meðfylgjandi grafi.

 

 

Dreifing eftir árstíðumDreifing eftir árstíðum

Sé litið til dreifingar ferðamanna eftir mánuðum á tímabilinu 2010 til 2016 má sjá að hlutdeild sumarsins í komum ferðamanna fer minnkandi en hlutdeildin var komin í 37,6% árið 2016 en var nærri helmingur árið 2010. Hlutfallsleg aukning utan háannar hefur hins vegar verið mest yfir vetrarmánuðina (janúar-mars/nóvember-desember) en 31,1% ferðamanna kom að vetri til árið 2016. Hlutfall ferðamanna að vetri var 23% árið 2010.

 

 

Ferðamenn eftir markaðssvæðumSkipting eftir markaðssvæðum 2016

Ferðamenn dreifast yfir árið nokkuð ólíkt eftir því hvaða markaðssvæði á í hlut. Bretar skera sig úr en ríflega helmingur þeirra kom að vetri til, Einungis einn af hverju fimm Norðurlandabúa og ferðamanna frá Mið- og S-Evrópu kom að vetri til. Mið- og S- Evrópubúar voru hins vegar áberandi yfir sumarmánuðina en 52,7% þeirra komu yfir sumarmánuðina þrjá. Tveir af hverjum fimm N-Ameríkana kom að sumri til, fjórðungur að vetri til og þriðjungur að vori eða hausti. Um þriðjungur þeirra sem falla undir önnur þjóðerni komu að sumri, um þriðjungur að vetri til og um þriðjungur að vori eða hausti.

Nánari upplýsingar

Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Ferðamenn 2015-2016