Fara í efni

Fjárlagafrumvarp 2015

forsíða www.fjarlog.is
forsíða www.fjarlog.is

Vegna frétta í fjölmiðlum um fyrirhugaðan niðurskurð á framlögum til Ferðamálastofu í nýkynntu fjárlagafrumvarpi er vert að taka fram að í raun er um óverulegar breytingar að ræða. Skýrist lækkunin af tilfærslu fjármuna milli fjárlagaliða.

Markaðsmál erlendis færð á öðrum stað

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 341,1 milljóna króna fjárveitingu til Ferðamálastofu, sem er lækkun upp á 122 milljónir króna að raungildi frá fjárlögum þessa árs. Hér ber þess hins vegar að gæta að inn í þeirri tölu voru 126,8 milljónir króna vegna markaðs- og kynningarmála erlendis, sem í raun komu ekki inn í rekstur stofnunarinnar. Þessir fjármunir eru nú færðir á liðinn „Ýmis ferðamál“.

Fjárveitingar til Ferðamálastofu

Sé litið til breytinga í fjárveitingum til Ferðamálastofu í nýju frumvarpi er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að veitt verði 10 milljóna króna tímabundið framlag til þriggja ára til að kortleggja auðlindir og innviði ferðaþjónustunnar á Íslandi. Í öðru lagi er lögð til 5,5 milljóna króna lækkun vegna ráðstafana til lækkunar ríkisútgjalda. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 0,3 milljóna króna hækkun í samræmi við endurskoðaða áætlun um ríkistekjur stofnunarinnar af gjaldi vegna eftirlits með tryggingum og rekstri ferðaskrifstofa.

Lækkun á framlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða

Í frumvarpinu er gert er ráð fyrir að framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða verði 145,8 milljónir króna og jafngildir það 115,2 milljóna króna lækkun að raungildi frá gildandi fjárlögum. Skýrist breytingin af þremur atriðum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að 150 milljóna króna tímabundið framlag, sem veitt var í fjárlögum 2014 til endurbóta á innviðum fjölsóttra ferðamannastaða, falli niður. Í öðru lagi er gerð tillaga um 38,8 milljóna króna hækkun framlags vegna aukinna tekna af gistináttaskatti. Áætlað er að á næsta ári verði innheimtar tekjur af skattinum 264,7 milljónir króna sem er 64,7 milljóna króna hækkun frá því sem gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Samkvæmt lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, nr. 75/2011, fær sjóðurinn lögbundið framlag sem nemur 3/5 hlutum tekna af gistináttaskatti. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 4 milljóna króna lækkun vegna aðhaldsaðgerða.