Fara í efni

Nærri fimmfalt meiri eyðsla í Reykjavík en Hvammstanga

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Niðurstöður ferðavenjukönnunar meðal erlendra gesta á átta áfangastöðum voru birtar í dag í Mælaborði ferðaþjónustunnar og kynntar á fundi sem Ferðamálastofa stóð fyrir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Helstu niðurstöður sýna að ferðavenjur og útgjöld erlendra gesta voru talsvert ólík eftir stöðum og lá helsti munurinn í ástæðum heimsóknar, dvalartíma og neyslumynstri gesta. 

Í könnuninni var lögð áhersla á greiningu ýmissa einkennandi þátta ferðamanna á rannsóknarsvæðunum s.s. búsetulandi, ferðamáta, gistimáta og dvalarlengd auk þess sem ástæða heimsóknar og útgjaldamynstur þeirra var skoðað. 

Meðalútgjöld ferðamanna á sólarhring voru hæst í Reykjavík þar sem gisting, veitingar og afþreying voru veigamestu útgjaldaliðirnir. Gestir staðanna voru almennt ánægðir með dvölina og víða komu fram jákvæðar athugasemdir um náttúrufegurð og þjónustu en þó var einnig greinileg óánægja með hátt verðlag.

Um könnunina

Ferðamálastofa fól Rannsóknamiðstöð ferðamála að framkvæma könnunina sumarið 2018. Könnunin náði til átta áfangastaða: Reykjavíkur, Reykjanesbæjar, Víkur, Stykkishólms, Ísafjarðar, Hvammstanga, Húsavíkur og Egilsstaða. Sem fyrr var framkvæmdin í höndum Lilju B. Rögnvaldsdóttur verkefnastjóra en hún hefur staðið að gerð sambærilegra kannana frá árinu 2013.

Nánari niðurstöður

Sem fyrr segir sýna helstu niðurstöður að ferðavenjur og útgjöld voru talsvert ólík eftir stöðum og lá helsti munurinn í ástæðu heimsóknar, dvalartíma og neyslumynstri gesta. Þar sem meðalútgjöld á sólarhring voru hæst, þ.e. í Reykjavík, voru alls 38 þúsund kr. Í höfuðborginni voru gisting, veitingar og afþreying veigamestu útgjaldaliðirnir. Vægi útgjaldaliða var hins vegar nokkuð ólíkt eftir stöðunum og til að mynda var hæsti útgjaldaliðurinn á Húsavík afþreying þar sem vægi hvalaskoðunar er mikið. Á Húsavík voru útgjöldin um 18 þúsund krónur á sólarhring. Lægst voru þau á Hvammstanga, um 8 þúsund krónur. Með öðrum orðum lætur nærri að eyðsla hvers ferðamanns í Reykjavik sé fimmfalt hærri en á Hvammstanga.

Dvelja lengst í höfuðborginni

Tjaldsvæðin voru vinsælli gistimáti á landsbyggðinni en á suðvestur horninu þar sem hótelgisting og einkagisting s.s. Airbnb voru algengari. Lengst dvöldu gestir í höfuðborginni en styst á Hvammstanga.

Hlutfall farþega með skemmtiferðaskipum var hæst á Ísafirði þar sem tæpur helmingur gesta notaði þann ferðamáta. Á öðrum stöðum var bílaleigubíll vinsælasti ferðamáti gesta.

Efni og upptökur

Niðurstöður könnunarinnar má finna í Mælaborði ferðaþjónustunnar undir liðnum Kannanir. Þá ná nálgast efni og upptökur frá fundinum í dag hér að neðan.

Fleiri verkefni í gangi

Verkefnið tilheyrir aðgerðarflokknum „áreiðanleg gögn í ferðaþjónustu“ sem hefur verið í undirbúningi hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Stjórnstöð ferðamála og Ferðamálastofu og snýst um reglulega gagnasöfnun að hálfu hins opinbera til eflingar ferðaþjónustu á Íslandi. Meðal þeirra verkefna sem eru í gangi er Landamærakönnun á upplifun ferðamanna á Íslandi, talningar ferðamanna í Leifsstöð og á helstu ferðamannastöðum á landinu, könnun á viðhorfi Íslendinga til ferðaþjónustu og ferðamennsku og Vinnuumhverfi og starfsánægja í ferðaþjónustu.

Næstu kynningar

Fundurinn í dag var sá fyrsti röð hádegisfyrirlestra sem Ferðamálastofa mun standa fyrir í vetur til kynningar á niðurstöðum rannsóknaverkefna og kannanna sem hún hefur umsjón með. Hádegiskynningarnar eru einnig hugsaðar sem tækifæri fyrir rannsakendur innan vísindasamfélagsins sem vilja koma niðurstöðum sínum á framfæri. Næsta kynning verður í lok janúar.