Fara í efni

Ferðaþjónusta í tölum – janúar 2023: Samantekt fyrir árið 2022

Í ,,Ferðaþjónusta í tölum – janúar 2023“ má sjá samantekt um ýmsar stærðir í íslenskri ferðaþjónustu fyrir árið 2022, m.a. brottfarartalningar erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll, skráðar gistinætur, nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd og heimsóknir eftir landshlutum.

Um 1,7 milljón erlendar brottfarir árið 2022*

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 1,7 milljón árið 2022 eða um milljón fleiri en árið 2021. Fjöldinn var um 85% af því sem hann var árið 2019 og 73% af því sem hann var árið 2018 sem var metár í fjölda ferðamanna til Íslands.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir árið 2022, tæplega 460 þúsund talsins eða ríflega fjórðungur (27%) allra brottfara. Um er að ræða tvisvar sinnum fleiri Bandaríkjamenn en árið 2021 og álíka marga og árið 2019. Brottfarir Breta voru í öðru sæti, um 230 þúsund eða fjórum sinnum fleiri en árið 2021. Fjöldi Breta var um 88% af því sem þeir mældust árið 2019. Í þriðja sæti voru brottfarir Þjóðverja, um 132 þúsund talsins eða rúmlega tvisvar sinnum fleiri en árið 2021. Brottfarir Þjóðverja voru álíka margar árið 2022 og árið 2019. Í fjórða til fimmta sæti voru brottfarir Frakka og Pólverja.

Langflestir eða um níu af hverjum tíu erlendum ferðalöngum voru í fríi á Íslandi árið 2022. Um 3,2% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum og um 2,9% í viðskiptatengdum tilgangi. Um 2,6% voru í annars konar tilgangi.

Meðalfjöldi gistinótta 7,4 nætur**

Ferðamenn dvöldu að jafnaði 7,4 nætur á ferðalögum um Ísland árið 2022 sem er nokkuð lengri dvalarlengd en mældist fyrir faraldur en dvalarlengdin var að jafnaði 6,6 nætur árið 2019 og 6,3 árið 2018. Breytt ferðamynstur vegna Covid-19 faraldursins leiddi af sér lengri dvalarlengd erlendra ferðamanna hérlendis og gætti þeirra áhrifa langt fram á árið 2022. Lengst var dvalarlengdin í júlí (9,0 nætur) og ágúst (8,9 nætur) en styst í desember (5,5 nætur), febrúar (5,6 nætur) og nóvember (5,7 nætur).

Bandaríkjamenn sem vega þyngst vegna hárrar hlutdeildar dvöldu að jafnaði 6,6 nætur árið 2022 eða um einni nótt lengur en þeir gerðu 2019 og 2018. Af tíu fjölmennustu þjóðernunum voru Þjóðverjar og Frakkar með lengstu dvalarlengdina 2022 eða um og yfir níu nætur.

Skráðar gistinætur 2022 fleiri en árið 2019

Skráðar gistinætur voru tæplega níu milljón talsins árið 2022 samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar, tæplega fjórum milljónum fleiri en árið 2021 (77% aukning) og 440 þúsund fleiri en árið 2019 (5,2% fjölgun). Þegar samsetning gistinótta er skoðuð fyrir og eftir faraldur má sjá hve há hlutdeild Íslendinga er í gistinóttum á tímum faraldursins eða 45% árið 2020 og 39% árið 2021 en Íslendingar fylltu að einhverju leyti í skarðið sem myndaðist þegar dró úr ferðalögum erlendra ferðamanna til landsins. Árið 2022 mátti rekja fimmtung gistinótta til Íslendinga sem er nokkuð hærra en var fyrir faraldur en hlutdeild Íslendinga mældist 13% árið 2018 og 2019.

Um helmingi gistinótta (53%) var eytt á hótelum, um 14% á gistiheimilum og tæplega þriðjungi (32%) í annars konar gistingu. Tæplega helmingi (46,9%) gistinótta var eytt yfir sumarmánuðina þrjá.

Tæplega helmingur hótelgistinótta tilkominn vegna Bandaríkjamanna og Íslendinga

Um 4,7 milljónum gistinótta var varið á hótelum árið 2022, nærri tvisvar sinnum fleiri en árið 2021 (91% aukning). Hótelgistinætur voru um 166 þúsund færri árið 2019.

Um fjórðung hótelgistinótta (tæplega 1,2 milljón) mátti rekja til Bandaríkjamanna og um fimmtung (934 þús.) til Íslendinga. Í þriðja til fimmta sæti voru gistinætur Breta, Þjóðverja og Frakka.

Nýting á hótelum fór yfir 90% í nokkrum landshlutum í júlí og ágúst

Nýtingin á hótelherbergjum var á bilinu 50-60% sex mánuði ársins (feb., mars, apríl, maí, nóv. og des.) og á bilinu 70-80% þrjá mánuði ársins (júní, sept, og okt.). Lægst var nýtingin í janúar (29%) og hæst í júlí og ágúst (89%) en þá fór hún yfir 90% á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Austurlandi.

 

 

Opna Ferðaþjónusta í tölum - Janúar 2023

* Fjöldatölur taka mið af brottfarartalningum Ferðamálastofu og Isavia á Keflavíkurflugvelli og ber að skoða tölurnar með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér.
**Þar sem ferðalög erlendra gesta lágu niðri fyrri hluta ársins 2021 vegna COVID-19 var ekki haldið úti samfelldri gagnasöfnun um ferðavenjur með könnunum ( jan.-maí 2021).