Ferðamenn til Íslands nærri 1,3 milljónir árið 2015

Fjöldi ferðamanna um Seyðisfjörð, Keflavíkurflugvöll og aðra flugvelli var um 1,3 milljónir árið 2015 en um er að ræða 291 þúsund fleiri ferðamenn en árið 2014. Aukningin milli ára nemur 29,2%. Gera þarf ráð fyrir vissum frávikum vegna aðferðafræðinnar sem beitt er.

Fjöldi ferðamanna eftir komustöðum

Breyting á milli ára

Þar fyrir utan eru farþegar með skemmtiferðaskipum en 100.141 farþegar komu til Reykjavíkur með 108 skipum árið 2015, 4,5% færri en á árinu 2014 þegar þeir voru 104.816 þúsund talsins. Um 96% skemmtiferðaskipa til landsins hafa viðkomu í Reykjavík.

Tíu fjölmennustu þjóðernin um Keflavík og Seyðisfjörð

Ferðamenn um Keflavíkurflugvöll 2015Um 73% ferðamanna um Keflavíkurflugvöll árið 2015 voru af tíu þjóðernum. Bretar og Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 38,3% af heildarfjölda ferðamanna en þar á eftir komu ferðamenn frá Þýskalandi (8,2%), Frakklandi (5,2%), Noregi (4,1%), Danmörku (3,9%), Kína (3,8%), Kanada (3,7%), Svíþjóð (3,4%) og Hollandi (2,3%). Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Bretum, Kínverjum og Þjóðverjum mest árið 2015. Þannig komu 90.781 fleiri Bandaríkjamenn en árið 2014, 60.521 fleiri Bretar, 21.606 fleiri Kínverjar og 17.469 fleiri Þjóðverjar.

Ferðamenn um Seyðisfjörð 2015Sölutölur frá Austfari gefa til kynna hver þjóðernasamsetning farþega með Norrænu til Íslands er eins og sjá má af grafi. Níu af hverjum tíu erlendum ferðamönnum með Norrænu árið 2015 voru af tíu þjóðernum. Þjóðverjar voru langfjölmennastir eða 45,8% af heildarfjölda en þar á eftir komu Danir (10,4%) og Færeyingar (9,2%).

Ekki eru tiltækar upplýsingar um þjóðernasamsetningu farþega um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.

FERÐAMENN UM KEFLAVÍKURFLUGVÖLL

Fjölgun alla mánuði ársins

Fjöldi / aukning á milli áraFjöldamet voru slegin í öllum mánuðum ársins 2015 á Keflavíkurflugvelli. Aukning milli ára fór yfir 30% átta mánuði ársins en hlutfallslega var hún mest milli ára í október (49,3%), september (39,4%) og maí (36,4%).
Líklegt er að ýmsir þættir hafi haft áhrif á þessa miklu aukningu. Þar má nefna árangur af umfangsmiklu markaðsstarfi og mikla fjölmiðlaumfjöllun um landið, ásamt jákvæðum áhrifum af hagstæðu gengi og auknu framboði á flugsætum.

Árstíðasveiflan minnkar enn

Sé litið til dreifingar ferðamanna eftir árstíðum má sjá að hlutfall ferðamanna utan háannar, þ.e. sumarmánuðina þriggja hefur hækkað milli ára 2014-2015. Hlutfallsleg aukning utan háannar hefur hins vegar verið mest að hausti og vetri.

Dreifing ferðamanna eftir árstíðum

Skipting eftir markaðssvæðum 2015

Brottfarir eftir mörkuðumFerðamenn frá einstökum markaðssvæðum dreifðust nokkuð ólíkt yfir árið. Bretar skera sig úr en ríflega helmingur (54,9%) þeirra kom að vetri til. Mið- og S- Evrópubúar voru hins vegar áberandi yfir sumarmánuðina en 55,8% þeirra komu að sumri. Norðurlandabúar, Norður Ameríkanar og ferðamenn frá löndum sem flokkast undir annað dreifðust hins vegar jafnar yfir árið eins og sýnt er á myndinni hér til hliðar.

Tíu fjölmennustu þjóðernin eftir árstíðum

Vetur (jan.-mars/nóv.-des.)

vetur 2015Um 29% erlendra ferðamanna árið 2015 komu að vetrarlagi eða 369.558 talsins. Um er að ræða tæplega 89.760 fleiri ferðamenn en yfir vetrarmánuðina árið 2014. Aukningin nemur 32,1% milli ára. Af einstaka þjóðum voru flestir vetrarferðamenn frá Bretlandi (35,8%) og Bandaríkjunum (16,3%). Ferðamenn frá Þýskalandi (4,5%), Frakklandi (4,0%), Kína (3,3%), Danmörku (3,3%), Noregi (3,2%), Svíþjóð (2,7%), Kanada (2,4%) og Japan (2,4%) fylgdu þar á eftir en samanlagt voru þessar tíu þjóðir 77,9% ferðamanna að vetrarlagi. Bretar og Bandaríkjamenn báru að miklu leyti uppi (58,7%) aukningu vetrarins en 34.643 þúsund fleiri ferðamenn komu frá Bretlandi yfir vetrarmánuðina 2015 en að vetri til 2014 og 18.015 fleiri Bandaríkjamenn. Um er að ræða 35,5% aukningu Breta milli ára og 42,6% aukningu Bandaríkjamanna.

Vor/Haust (apríl-maí/sept.-okt.)

Vor haust30,5% erlendra ferðamanna árið 2015 komu að vori eða hausti til eða um 384.957 talsins, 104.214 fleiri ferðamenn en á sama tímabili árið 2014. Aukningin nemur 37,1% milli ára. Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn að vori og hausti frá Bandaríkjunum (19,5%) og Bretlandi (17,3%). Þar á eftir komu ferðamenn frá Þýskalandi (7,5%), Noregi (5,9%), Danmörku (4,7%), Kanada (4,5%), Svíþjóð (4,3%), Frakklandi (4,0%), Kína (3,3%) og Hollandi (2,2%) en samanlagt voru þessar tíu þjóðir 73,2% ferðamanna að vori og hausti.

Næstum helmingsaukning að vori og sumri var borin uppi af Bandaríkjamönnum sem fjölgaði um 32.218 og Bretum sem fjölgaði um 16.951.

Sumar (júní-ágúst)

Sumar 2015Um 40,2% ferðamanna komu yfir sumarmánuðina þrjá eða 507.423. Um var að ræða 98.783 fleiri ferðamenn en sumarið 2014 og nemur aukningin 24,2% milli ára. Af einstaka þjóðum voru flestir ferðamenn að sumri árið 2015 frá Bandaríkjunum (21,1%) og Þýskalandi (11,4%). Þar á eftir fylgdu ferðamenn frá Bretlandi (8,3%), Frakklandi (7,0%), Kína (4,4%), Kanada (4,0%), Danmörku (3,7%), Noregi (3,3%), Svíþjóð (3,3%) og Spáni (3,2%) en samanlagt voru þessar tíu þjóðir 69,7% ferðamanna sumarið 2015.

Af einstaka þjóðum fjölgaði Bandaríkjamönnum mest eða um 40.468, Kínverjum um 10.036, Bretum um 8.927 og Þjóðverjum um 6.317 en þessar fjórar þjóðir báru uppi 66,6% aukningu að sumri til.

Nánari upplýsingar

Gera þarf ráð fyrir frávikum í tölunum, vegna þeirrar aðferðafræði sem beitt er. Talningar Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríksson ná þannig til allra brottfara, meðal annars erlendra ríkisborgara með fasta búsetu á Íslandi. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.

Ferðamenn 2015 og 2014


Athugasemdir