Fara í efni

Ferðamálastofa stofnuð með nýjum lögum um skipulag ferðamála

johnmoreu
johnmoreu

Alþingi samþykkti samhljóða í gærkvöld ný heildarlög um skipulag ferðamála sem taka gildi 1. janúar 2006. Verulegar breytingar verða á starfsemi Ferðamálaráðs sem stofnunar þar sem hún fær aukin stjórnsýsluleg verkefni, ásamt því sem nafni hennar verður breytt í Ferðamálastofa.

Umfangsmikill málaflokkur bætist við
Stofnunin mun áfram sinna öllum þeim verkefnum sem verið hafa á hennar könnu hingað til og við bætist umfangsmikill málaflokkur sem snýr að útgáfu ýmissa leyfa í ferðaþjónustu, skráningu á starfsemi og eftirliti með að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt. Þetta tekur m.a. til ferðaskrifstofuleyfa.

Nýtt hlutverk Ferðamálaráðs
Ferðamálaráð, sem verið hefur stjórn stofnunarinnar, fær nú annað hlutverk þar sem Ferðamálastofa heyrir beint undir samgönguráðherra. Tíu fulltrúar munu sitja í nýju Ferðamálaráði. Það gerir, árlega eða oftar, tillögu til ráðherra um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar. Jafnframt skal ferðamálaráð vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum. Ferðamálaráð skal veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál og annað sem ráðherra felur því eða ráðið telur ástæðu til að taka upp í þágu ferðaþjónustunnar.

Megintilgangur laganna
Í lögunum kemur fram að megintilgangur þeirra er að breyta hlutverki Ferðamálaráðs og gera skrifstofu Ferðamálaráðs kleift að gegna hlutverki stjórnsýslustofnunar, ásamt því að setja skýrari og fyllri reglur um leyfisskylda starfsemi og réttindi og skyldur sem leyfum fylgja. Eins og málum er nú háttað er Ferðamálaráð ekki eiginleg stjórnsýslustofnun en frumvarpinu er ætlað að gera Ferðamálastofu að slíkri stofnun.

Allir núverandi samningar, þ.m.t. ráðningarsamningar starfsfólks og allar eignir og skuldbindingar núverandi Ferðamálaráðs samkvæmt lögunum, munu færast til Ferðamálastofu. ?Næstu mánuðir hjá okkur munu eðlilega fara í að búa stofnunina undir að sinna auknum verkefnum og takast á við nýtt hlutverk þannig að allt verði til reiðu um næstu áramót þegar Ferðamálastofa hefur starfsemi,? segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.

Skammt stórra högga á milli
Hann bætir við að með sanni megi segja að skammt sé stórra högga á milli í skipan mála ferðaþjónustunnar. Í síðustu viku samþykkti alþingi samhljóða þingsályktun um ferðamál. Felur hún í sér samþykkt áætlunar um ferðamál fyrir árin 2006-2015 og skapar grunn að stefnumótun stjórnvalda hvað varðar áherslur þeirra í þróun greinarinnar næstu 10 ár.

Ný lög um skipan ferðamála má nálgast á vef alþingis. Skoða lög um skipan ferðamála