Fara í efni

Ferðalög, ferðahegðun og viðhorf Íslendinga til málefna ferðaþjónustunnar


Niðurstöður liggja fyrir úr könnun um ferðalög Íslendinga á árinu 2015 og ferðaáform þeirra á árinu 2016 sem Ferðamálastofa fékk MMR til að framkvæma í janúar síðastliðnum. Er þetta sjöunda árið í röð sem könnun Ferðamálastofu um ferðahegðun landsmanna er gerð með sambærilegum hætti.

Niðurstöður á gagnvirkum vef

Vefur með könnnum

Niðurstöður úr könnuninni má nálgast á nýju vefsvæði þar sem hægt að skoða niðurstöður með ýmsum hætti með hliðsjón af niðurstöðum fyrri kannana. Ennfremur má nálgast niðurstöður á skýrsluformi. Vefurinn byggir á ókeypis hugbúnaði sem nefnist Tableau en áður hefur Ferðamálastofa gert viðhorfskannanir sínar meðal erlendra ferðamanna aðgengilegar með sama hætti.

Opna gagnvirkan vef

Hlaða niður skýrslu

Áhrif ferðaþjónustu og ferðamanna

Mat á áhrifumKönnunin er sambærileg þeirri sem lögð var fyrir Íslendinga um ferðalög þeirra síðastliðin ár. Í síðustu þremur könnunum hafa svarendur verið beðnir um að taka afstöðu til nokkurra fullyrðinga um áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna á náttúru og samfélag. Eins og sjá má af mynd hér til hliðar fer þeim fjölgandi sem telja að álag ferðamanna sé of mikið á íslenska náttúru, eða 75,5% nú samanborið við 66,3% fyrir ári síðan. Um 62% voru á því í ár að ferðamenn hefðu aukið áhuga Íslendinga á íslenskri náttúru, ívið hærra hlutfall en í könnuninni árið 2015, en lægra hlutfall en í könnuninni 2014. Eins virðist þeim fara fækkandi sem telja að ferðamenn auki áhuga Íslendinga á eigin menningu. Um 56% svarenda voru á því að ferðaþjónusta hefði skapað eftirsóknarverð störf í heimabyggð í ár, jafn hátt hlutfall og í könnuninni árið 2015 en ívið færri en í könnun meðal Íslendinga árið 2014.

Álíka margir eru hins vegar á því í ár eða ríflega 40% að ferðaþjónusta hafi leitt til fjölbreyttari þjónustu sem svarendur hafi nýtt sér og í fyrri könnunum. Einni fullyrðingu var bætt við að þessu sinni en þar var spurt um það hvort ferðaþjónustutengd afþreying væri aðlaðandi kostur fyrir Íslendinga og voru 58,4% svarenda sammála því.

Áherslur við uppbyggingu ferðaþjónustunnar

Áhesluatriði við uppbygginguAð þessu sinni voru landsmenn í annað sinn beðnir um að taka afstöðu til þess hvaða þrjú atriði hið opinbera ætti að leggja áherslu á næstu fimm árum til að stuðla að uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu. Ýmsir þættir voru nefndir í því samhengi eins og sjá má hér til hliðar. Ríflega helmingur svarenda nefndi atriði í tengslum við innviði ferðaþjónustunnar, uppbyggingu, aðgengi og skipulag eða svipað hlutfall og í könnun fyrir ári síðan. Um þriðjungur var á því að huga þyrfti að samgöngum og vegakerfi, mun hærra hlutfall en í könnuninni í fyrra. Mun fleiri nefndu í ár en í fyrra að leggja þyrfti áherslu á umhverfismál, umgengni og salernisaðstöðu. Önnur atriði sem voru nefnd tengdust aðkomu hins opinbera, eftirliti, stuðningi, markaðsmálum, menntun, stýringu ferðamanna og öryggismálum.

Ferðalög innanlands

Niðurstöður könnunarinnar sýna líkt og áður hversu ferðaglaðir Íslendingar eru. Um 85% ferðuðust innanlands árið 2015 aðeins lægra hlutfall en fyrri kannanir Ferðamálastofu gefa til kynna. Farnar voru að jafnaði 6,0 ferðir innanlands árið 2015 en á árinu 2014 voru farnar 6,6 ferðir og árið 2013, 5,7 ferðir. Dvalið var að jafnaði 14,7 nætur á ferðalögum innanlands árið 2015 en á árinu 2014 var 15,7 nóttum varið á ferðalögum innanlands og 15,4 nóttum árið 2013.

Hvers konar upplýsingarUpplýsingar um ferðalög

Ríflega helmingur aflaði upplýsinga varðandi ferðalög sín innanlands á árinu 2015. Flestir nýttu netið eða 85,3% og snjallforrit eða 48,3%. Upplýsinga var aflað í nokkrum mæli með lestri bæklinga og bóka, með heimsóknum á upplýsingamiðstöðvar og hjá vinum og ættingjum.
Af þeim sem aflaði upplýsinga nefndu flestir upplýsingar um veður, færð á vegum, afþreyingarmöguleika, gistingu, veitingastaði og opnunartíma.

Hvenær á árinu var ferðast innanlands

Ferðalög landsmanna eru árstíðabundin og eru júlí og ágúst langstærstu ferðamannamánuðirnir en á síðasta ári ferðuðust 68,2% í júlí og 62,8% í ágúst. Júnímánuður fylgir síðast fast á eftir en þá ferðaðist ríflega helmingur. Í öðrum mánuðum var ferðast í mun minna mæli.

Hvenær á árinu var ferðast innanlands

Hvar var gist

Af svörum um dvalarlengd innan einstakra landshluta má ætla að um fjórðungi gistinótta árið 2015 hafi verið eytt á Norðurlandi og um ríflega fjórðungi á Suðurlandi, heldur fleiri gistinóttum á Suðurlandi en árið 2014. Hlutfallslega fleiri gistinóttum var eytt á Vesturlandi en árið 2014 eða um 18% af heildarfjölda.

Gistinætur eftir landshlutum

Hvert var farið

Nærri tveir af hverjum þremur sem ferðuðust innanlands árið 2015 heimsóttu Suðurland og þar á eftir kom Norðurland en 52,3% fóru þangað. Alls var spurt um heimsóknir á 55 staði og svæði vítt og breitt á landinu. Eins og fram kemur hér að ofan tilgreindu 24,3% höfuðborgarsvæðið en listinn yfir 10 fjölsóttustu staðina var annars eins og fram kemur í töflunni hér að neðan:

Dagsferðir

Spurt hefur verið sérstaklega um dagsferðir en þær eru skilgreindar sem skemmtiferðir, fimm klst. langar eða lengri út fyrir heimabyggð án þess að gist sé yfir nótt. Um 72% fóru í dagsferð á árinu 2015 og fóru þeir að jafnaði 7,2 ferðir nokkuð færri en árið 2014 þegar farnar voru 8,1 dagsferð. Suðurland var oftast nefnt sem landshluti þegar spurt var hvert fólk hefði farið í þessum ferðum (58,5%) og Þingvellir voru algengasti áfangastaðurinn (30,2%).

Fleiri fara í utanlandsferð

UtanlandsferðirUm 71% aðspurðra fór í utanlandsferð á árinu en hlutfallið hefur ekki mælst svo hátt í könnunum Ferðamálastofu síðastliðin sjö ár. Farnar voru að jafnaði 2,2 ferðir, aðeins færri en árið 2014 þegar farnar voru 2,4 utanlandsferðir. Gist var 17,5 nætur í útlöndum að jafnaði árið 2015, álíka margar og árið 2014. Ekki voru teknar með í úrvinnslu ferðir þar sem dvalið var 100 nætur og lengur. Ferðalög utan voru eins og niðurstöður fyrri kannana hafa sýnt að stærstu hluta bundin við Evrópu. Um 34% ferðuðust til Spánar eða Portúgals, 26,9% til Bretlands eða Írlands, 23,1% til Danmerkur, 22,3% til Bandaríkjanna eða Kanada, 18,6% til Þýskalands, 13,9% til Svíþjóðar og 12,0% til Noregs.

Flestir fóru í borgarferð eða 43% aðspurðra, 36% heimsótti vini og ættingja, 33,6% fór í sólarlandaferð og 24,3% í vinnutengda ferð.

Mikilvægi gæðavottunarGæðavitund fer vaxandi

Svo virðist sem fleiri láti það sig skipta hvort þau fyrirtæki sem skipt er við séu með viðurkennda gæða- eða umhverfisúttekt. Þannig sögðu 36,5% nú að það skipti mjög eða frekar miklu máli á móti 28,6% fyrir tveimur árum síðan. Þá hefur hlutfall þeirra sem segja slíka úttekkt skipta sig litlu eða engu máli lækkað úr 40,1% í 28,1%.

Ferðaáform 2016Ferðaáform

Níu af hverjum tíu hafa áform um ferðalög á árinu 2016 eða sambærilegur fjöldi og í fyrri könnunum. Ferðaplönin eru fjölbreytt að vanda en meira en helmingur ætlar í sumarbústaðaferð innanlands og í heimsókn til vina og ættingja og um 42% í borgarferð erlendis. Sólarlandaferðir njóta vaxandi vinsælda og stefna 28,4% á eina slíka á árinu. Aðrir valkostir sem fjölmargir nefndu voru ferð með vinahópi eða klúbbfélögum, bæjarferð innanlands, að elta góða verðrið og útivistarferð.

Um könnunina

Könnunin var unnin sem netkönnun dagana 12. til 20. janúar 2016. Úrtakið var 1.398 Íslendingar á aldrinum 18-80 ára, valdir handahófskennt úr 18.000 einstaklinga álitsgjafahópi MMR sem valinn er með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Svarhlutfall var 66,0%. Niðurstöður könnunarinnar eru vigtaðar með tilliti til kyns, aldurs, búsetu og menntunar í þýði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR.“