Fara í efni

Ferðahegðun ólík á milli markaðssvæða

Ferðahegðun ólík á milli markaðssvæða

Meðaldvalarlengd erlendra ferðamanna hér á landi var 5,8 nætur í janúar síðastliðnum. Bretar stöldruðu styst við, 4,7 nætur að meðaltali, en voru hins vegar duglegastir að nýta sér hótelgistingu. Lengst dvöldu Norðurlandabúar og íbúar Austur-Evrópu, eða tæpar 9 nætur. Hér ræður mestu í hvaða tilgangi íbúar ólíkra markaðssvæða eru komnir til landsins þar sem dvalarlengd er mjög breytileg eftir tilgangi ferðar. Þetta er meðal niðurstaðna úr nýrri landamærarakönnun Ferðamálstofu sem nálgast má í Mælaborði ferðaþjónustunnar.

Ný sýn á tölulegar upplýsingar í ferðaþjónustu 

Hin myndræna birting í Mælaborði ferðaþjónustunnar opnar nýja og aðgengilegri sýn á tölulegar upplýsingar í ferðaþjónustu. Með því að skoða tilgang ferðar kemur t.d. í ljós að löng meðaldvöl Norðurlandabúa og íbúa frá A-Evrópu í janúar skýrist helst af því að þeir voru hér í minna mæli í fríi en gestir annarra markaðssvæða. Þannig var 36,2% Norðurlandabúa og 26% íbúa frá A-Evrópu annað hvort að heimsækja vini og ættingja eða í tímabundinni vinnu, en í báðum þessum flokkum en meðaldvöl mun lengri en hjá þeim sem tilgreina frí sem tilgang ferðar. Nánar má sjá hverning tilgangur ferðar er á milli markaðssvæða á myndritinu hér að ofan.

Í heildina voru 82,5% ferðamanna hingað komnir í frí í janúar, sem er álíka hlutfall og í desember en hins vegar nokkru lægra en ef litið er til haust- og sumarmánaða.

40% Norðurlandabúa greiddu ekki fyrir gistingu

Helmingur gistinátta í janúar var á hótelum og gistiheimilum, sem er mun hærra hlutfall en á sumrin. Hér er einnig fróðlegt að skoða mismun á milli markaðssvæða. Þannig skera Norðurlandabúar sig nokkuð úr en tæp 40% þeirra gistu að einhverju leyti hjá vinum og ættingjum, höfðu íbúðaskipti o.fl. þar sem ekki er greitt fyrir næturdvöl. Bretar á hinn bóginn eru duglegastir allra að nota hótelgistingu en tæp 60% þeirra gistu á hótelum og gistiheimilum í janúar á meðan að eins um 10% tilgreindi gistimáta þar sem ekki er greitt fyrir næturdvöl.

Mánaðarlegar niðurstöður

Með könnuninni verður til ítarlegri þekking á viðhorfi og atferli erlendra ferðamanna heldur en hingað til hefur legið fyrir. Lykilatriði í því sambandi er að nú hafa skapast forsendur til að birta mánaðarlega niðurstöður er varða meðal annars dvalarlengd, gistimáta og tilgang ferðar. Allt eru þetta mikilvægir mælikvarðar á umfang ferðaþjónustunnar sem hægt verður að nota til að fylgjast betur með breytingum og þróun í atvinnugreininni.

Næstu birtingar

Þær niðurstöður sem nú eru aðgengilegar eru aðeins hluti þeirra gagna sem safnað er. Fleiri niðurstöður munu koma inn í Mælaborðið á næstunni eftir því sem úrvinnslu vindur fram, s.s. varðandi bókunarferlið, hvað hafði áhrif á ákvörðun um að heimsækja landið, hvaða landshlutar voru heimsóttir, hvaða afþreying var nýtt o.fl.

Könnunin er tvískipt, þ.e. við brottför á Keflavíkurflugvelli er spurt nokkurra spurninga og þeir sem samþykkja frekari þátttöku fá síðan sendan hlekk í tölvupósti með spurningalista sem svarað er eftir heimkomu. Framvegis er stefnt á að mánaðarlega verði birtar niðurstöður helstu spurninga sem spurt er á flugvellinum en niðurstöður þessa hluta sem svarað er eftir að heim er komið muni birtast að lokinni hverri árstíð.
Könnunin er framkvæmd fyrir Ferðamálastofu og Hagstofuna af danska fyrirtækinu Epinion, sem er alþjóðlegt fyrirtæki í gerð flugvallarkannana. Úrvinnsla gagna er í höndum Ferðamálastofu og Stjórnstöðvar ferðamála í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Deloitte.