Fara í efni

Farfuglaheimilin í Reykjavík fá Svansvottun

Svansvottun farfugla
Svansvottun farfugla

Farfuglaheimilunum í Laugardal og á Vesturgötu var á dögunum afhent vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Farfuglaheimilin uppfylla því strangar kröfur Svansins og eru framarlega í flokki fyrirtækja sem haga rekstri sínum í sátt við umhverfið. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, afhenti Farfuglum vottunina við hátíðlega athöfn í sal Farfuglaheimilisins í Laugardal að Sundlaugavegi 34.

Farfuglaheimilin hafa lengi verið í fararbroddi í umhverfismálum hér á landi og er vottun í dag staðfesting þess árangurs sem hefur náðst. Það er ánægjulegt að sjá að stöðugt fjölgar í hópi Svansleyfa, enda eru Svansleyfin á Íslandi orðin sjö talsins, auk þess sem 12 aðrar umsóknir hafa borist Umhverfisstofnun segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, í frétt frá Farfuglum. Á myndinni er hún með Sigríði Ólafsdóttur, rekstrarstjóra Farfuglaheimilanna í Reykjavík


Farfuglaheimilin í Reykjavík
Farfuglaheimilið á Vesturgötu 17 var opnað á vormánuðum 2009. Frá opnun hefur það unnið markvisst að því að takmarka áhrif rekstursins á umhverfið og hlýtur nú Svansvottun um ári eftir opnun heimilisins.

Farfuglaheimilið í Laugardal hefur um langa tíð hagað rekstri sínum í sátt við umhverfið. Árið 2002 hlaut heimilið Umhverfisverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir sitt framlag að umhverfismálum og árið 2004 fékk Farfuglaheimilið Svansvottun. Í dag er því um endurnýjun leyfis að ræða. Heimilið hefur ávallt lagt áherslu á umhverfisfræðslu og hvatt gesti til að taka þátt í umhverfisstarfi á ferðalögum sínum.

Horft til framtíðar
Farfuglar birtu umhverfisstefnu sína árið 1999 og hafa í mörg ár verið í fararbroddi í umhverfisstarfi í ferðaþjónustu á Íslandi. Þai hlutu umhverfisverðlaun ferðamálastofu árið 2003. Farfuglaheimilin í Reykjavík eru lykilheimili í hópi 36 farfuglaheimila á Ísland og ákváðu að sækjast eftir vottun frá Svaninum. Markmiðið var að gera umhverfisstarfið markvissara, auka hagkvæmni í rekstri og vinna að stöðugum umbótum í þjónustu og rekstri í anda Farfugla. Það er krafa frá ferðamönnum að geta valið þjónustu frá fyrirtækjum sem gera betur í umhverfismálum.

Farfuglaheimilin í Reykjavík vinna af heilum hug við að mæta þeim kröfum og eftir dvöl þar eru gestirnir betur upplýstir um leiðir til að draga úr áhrifum á umhverfið. Gildi þjálfunar og símenntunar fyrir starfsfólkið er einnig verðmætur þáttur í umhverfisstarfinu segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfuglaheimilanna í Reykjavík. Það er okkar ábyrgð að vera góð fyrirmynd og veita starfsfólkinu stuðning í starfi, sem er auðveldara með því utanumhaldi sem fylgir Svansvottuðum rekstri. Auk þess miðar umhverfisstarf líka að því að bæta starfsumhverfi og við viljum bjóða starfsfólkinu okkar upp á það besta, líkt og gestunum. Um leið og það er rekstrarlega hagkvæmt er það fyrst og fremst siðferðislega rétt að vinna í anda sjálfbærni segir Sigríður.