Fara í efni

Erlendir ferðamenn með tæp 90% greiddra gistinótta 2019

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Heildarfjöldi greiddra gistinótta ferðamanna á Íslandi var um 10 milljónir árið 2019 og var hlutdeild erlendra ferðamanna um 89%.

Þessu til viðbótar má gera ráð fyrir að fjöldi óskráðra gistinótta sem ekki var greitt fyrir hafi verið um 1,8 milljón talsins árið 2019 og var hlutdeild Íslendinga 75%.

58% af heildarfjölda greiddra gistinótta var á hótelum og gistiheimilum.

Hlutdeild höfuðborgarsvæðis og Suðurnesja í heildarfjölda gistinótta á hótelum og gistiheimilum var 54,7% og hlutdeild landsbyggðar var 45,3%.

Um tveimur af hverjum fimm gistinóttum erlendra ferðamanna á hótelum og gistiheimilum var eytt að sumarlagi en gistinætur Íslendinga dreifast tiltölulega jafnt yfir árið.


Skipting eftir tegund gistingar

Skiptingu greiddra gistinótta eftir tegund gistingar má sjá nánar í meðfylgjandi töflu.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum 2019

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru tæplega 5,8 milljón talsins árið 2019 eða 58% af heildarfjölda greiddra gistinótta. Hlutdeild erlendra ferðamanna var 90%.

Erlendir ferðamenn eyddu um 5,2 milljónum gistinótta á hótelum og gistiheimilum árið 2019; um þriðjungi (32,9%) á tímabilinu janúar til maí, ríflega þriðjungi (35,1%) að sumri til (júní-ágúst) og tæpum þriðjungi (31,8%) á tímabilinu september til desember.

Íslendingar eyddu um 580 þúsund gistinóttum á hótelum og gistiheimilum og dreifðust þær tiltölulega jafnt yfir árið. Flestum var þó eytt að sumri til, í júní (9,4%), júlí (10,8%) og ágúst (9,8%).

Dreifing eftir landshlutum

Hlutdeild höfuðborgarsvæðis og Suðurnesja í heildarfjölda gistinótta á hótelum og gistiheimilum var 54,7% árið 2019, þar af voru gistinætur erlendra ferðamanna 92,6%. Nærri tveimur af hverjum fimm gistinóttum erlendra ferðamanna var eytt á tímabilinu janúar til maí, um þremur af hverjum tíu að sumri til og þriðjungi á tímabilinu september til desember. Íslendingar eyddu um þremur fjórðu gistinótta á höfuborgarsvæðinu og Suðurnesjum utan sumarmánaða.

Hlutdeild landsbyggðar í gistinóttafjölda árið 2019 var 45,3% og voru gistinætur erlendra ferðamanna 86,8%. Um tveimur af hverjum fimm gistinóttum erlendra ferðamanna var eytt að sumarlagi, ríflega fjórðungi á tímabilinu janúar til maí og um þremur af hverjum sjö á tímabilinu september til desember. Gistinætur Íslendinga á landsbyggðinni dreifðust nokkuð jafnt eftir tímabilum.

 

 

Hér má sjá nánar hver hlutdeild landshluta er í gistinóttum á hótelum og gistiheimilum.

 

Óskráðar gistinætur 2019

Gera má ráð fyrir að fjöldi óskráðra gistinótta sem ekki var greitt fyrir hafi verið um 1,8 milljón talsins árið 2019 og er þá byggt á niðurstöðum kannana. Hlutdeild Íslendinga í óskráðum gistinóttum er áætlað 75%.

Ætla má að Íslendingar á ferðalögum innanlands árið 2019 hafi eytt ríflega 1,3 milljón gistinótta í sumarhúsum eða íbúðum í einkaeign, hjá vinum og ættingjum eða í annars konar gistingu sem ekki var greitt fyrir.

Erlendir ferðamenn eyddu um 160 þúsund gistinóttum í bílum utan tjaldsvæða og um 300 þúsund gistinóttum hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annarri gistingu sem ekki var greitt sérstaklega fyrir.

 

Heimildir:
- Hagstofa Íslands. Gistináttatalningar 2019.
- Hagstofa Íslands og Ferðamálastofa. Landamærarannsókn 2019.
- Ferðamálastofa. Ferðalög Íslendinga 2017.