Fara í efni

Jákvæðara viðhorf íbúa á höfuðborgarsvæðinu í garð ferðamanna en í fyrra

Mynd: Íslandsstofa/©Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins
Mynd: Íslandsstofa/©Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins

Samkvæmt nýrri könnun Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um viðhorf íbúa til ferðamanna og ferðaþjónustu eru 71% íbúa höfuðborgarsvæðisins jákvæðir í garð ferðamanna. Þetta kemur fram í frétt á vef markaðsstofunnar. Um er að ræða aukningu frá 2024, þegar hlutfall íbúa með jákvætt viðhorf var 66%. Könnunin var gerð af Maskínu fyrir hönd Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins í apríl 2025 og er endurtekning á könnun sem var gerð á sama tíma í fyrra.

 

Jákvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag

Í fréttinni segir að meirihluti íbúa, eða 72%, telur að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu. Um 75% eru einnig þeirra skoðunar að ferðaþjónusta hafi jákvæð efnahagsleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu. Þegar spurt er um hvað sé jákvæðast við ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu er oftast nefnt að greinin skapi tekjur, en þar á eftir er einnig minnst á styrkingu mannlífs í borginni og eflingu veitingastaða, kaffihúsa og bara. Til að mynda telja 83% íbúa höfuðborgarsvæðisins að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á framboð veitingastaða. Þegar spurt er um neikvæð áhrif ferðaþjónustu nefna íbúar höfuðborgarsvæðisins helst fjölda ferðamanna, umferð bílaleigubíla og hópferðabifreiða ásamt áhrifa á leiguhúsnæði. Heilt yfir litið eru þó flest, eða 61%, þeirrar skoðunar að jákvæðar hliðar ferðaþjónustunnar vegi þyngra samanborið við þau 14% sem telja neikvæðar hliðar vega þyngra.

 

Viðhorf til fjölda ferðamanna breytilegt eftir árstíðum

Eins og fyrri kannanir hafa leitt í ljós er nokkur munur á afstöðu íbúa höfuðborgarsvæðisins til fjölda ferðamanna eftir árstíðum. Þannig telja 53% íbúa að fjöldi ferðamanna í miðborg Reykjavíkur sé mikill eða of mikill yfir sumarmánuðina, en aftur á móti lækkar það hlutfall niður í 22% á veturna. Alls telja 44% aðspurðra fjölda ferðamanna í miðborg Reykjavíkur hæfilegan á sumrin en yfir vetrarmánuðina segja 64% fjöldann hæfilegan. Hvort sem um er að ræða sumar eða vetur er meirihluti íbúa höfuðborgarsvæðisins, eða 82%, þeirra skoðunar að ferðamenn séu vinsamlegir í samskiptum.

 

Könnunin í heild