Vegna atviks við Langjökul 7. janúar

Vegna atviks við Langjökul 7. janúar
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Í kjölfar frétta af farþegum ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers sem lentu í hrakningum í vélsleðaferð þann 7. janúar sl. óskaði Ferðamálastofa eftir gildandi öryggisáætlun fyrirtækisins og skýringum á tilurð atviksins.

Hver sá sem framkvæmir skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis ber ábyrgð á því að útbúa skriflega öryggisáætlun. Hlutverk Ferðamálastofu er að hafa eftirlit með því að öryggisáætlanir séu til staðar og séu uppfærðar eins og þörf er á skv. 11. gr. laga um Ferðamálastofu nr. 96/2018. Öryggisáætlun skal gerð fyrir hverja tegund ferðar og skal innihalda áhættumat, verklagsreglur, viðbragðsáætlun og atvikaskýrslu.

Mat Ferðamálastofu á öryggisáætlun Mountaineers

Eftirlit og skoðun Ferðamálastofu beindist fyrst og fremst að öryggisáætlun vélsleðaferðarinnar. Ferðamálastofu barst öryggisáætlun fyrirtækisins og innihélt hún þá þætti sem gerður er áskilnaður um í lögum. Það er því mat Ferðamálastofu að öryggisáætlun Mountaineers uppfylli formskilyrði 11. gr. laga um Ferðamálastofu nr. 96/2018. Ferðamálastofa skoðaði einnig atriði sem varða öryggisáætlanir almennt og gerði athugasemdir við að einstaka þættir öryggisáætlunarinnar mættu vera ítarlegri og skýrari m.a. varðandi veðurfar og -skilyrði, kynningu á öryggisreglum og -þáttum til farþega og starfsmanna, leiðarval og ytri aðstæður.

Ferðaþjónustufyrirtækinu Mountainers hafa verið kynntar athugasemdir Ferðamálastofa og hefur því verið veittur mánaðarfrestur til úrbóta.


Athugasemdir