Tilboð óskast í framkvæmd könnunar um ferðavenjur Íslendinga

Tilboð óskast í framkvæmd könnunar um ferðavenjur Íslendinga
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson

Ferðamálastofa óskar eftir tilboði í framkvæmd könnunar meðal Íslendinga í janúar 2021 um ferðavenjur þeirra innanlands og utan árið 2020 og ferðaáform á árinu 2021. Um er að ræða framhald á könnun sem Ferðamálastofa hefur látið gera árlega í upphafi hvers árs frá árinu 2010.

Verkefnið er skilgreint í rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2020-22 og er hluti af reglubundinni söfnun hins opinbera á tímanlegum, áreiðanlegum og samanburðarhæfum gögnum og greiningum á ferðahegðun Íslendinga innanlands og utan til grundvallar ákvarðanatöku og markmiðssetningu í greininni. Samningur verður gerður til eins árs með möguleika á að framlengja hann um tvö ár til viðbótar.

Óskað er eftir verðtilboði fyrir kl. 12, föstudaginn 18. desember næstkomandi.

Gagnaöflun

Við tilboðsgerð skal miða við að spurningakönnun verði lögð fyrir viðhorfahóp/netpanel könnunarfyrirtækisins fyrri hluta janúarmánaðar 2021. Gert er ráð fyrir að svör fáist frá a.m.k. 1000 einstaklingum og að úrtakið endurspegli sem best landsmenn, 18 ára og eldri.

Spurningalistinn

Spurningalistinn liggur fyrir (Sjá fylgiskjal 1) en hann byggir á síðustu könnun sem var framkvæmd fyrir Ferðamálastofu í janúar 2020. Gert er ráð fyrir fimm viðbótarspurningum um útgjöld vegna ferðalaga og upplifun af ferðalögum, fjórum hálflokuðum viðbótarspurningum og einni opinni spurningu og verða þær fullunnar í samráði við framkvæmdaraðila.

Úrvinnsla

Niðurstöður skulu keyrðar eftir bakgrunnsupplýsingum; kyni, aldri, búsetu, starfsstétt og heimilistekjum Við úrvinnslu skal taka mið af framsetningu niðurstaðna úr könnun Ferðamálastofu um ferðalög Íslendinga og framtíðaráform.

Eftir því sem kostur er skal gera samanburð við niðurstöður úr fyrri könnunum sem hafa verið framkvæmdar á tímabilinu 2010-2020. Ferðamálastofa lætur í té gagnaskrá með niðurstöðum úr fyrri könnunum.

Niðurstöður og hrágögn

Tilboðið skal miða við að niðurstöður úr könnun liggi fyrir í skýrsluformi eigi síðar en 20. mars 2021 þar sem niðurstöður úr öllum spurningum verða settar fram myndrænt og í töflum.

Hrágögnum skal skila í excel skjali og SPSS-skrá (eða á sambærilegu formati) með svarlyklum, til birtingar í Mælaborði ferðaþjónustunnar, eigi síðar en 20. mars 2021.

Skilafrestur tilboðs

Óskað er eftir verðtilboði fyrir kl. 12, föstudaginn 18. desember næstkomandi. Umsóknir skal senda á oddny@ferdamalastofa.is.

Ef nánari upplýsinga er óskað, vinsamlega hafið samband við undirritaða:

Oddný Þóra Óladóttir,
oddny@ferdamalastofa.is


Athugasemdir