Fara í efni

Sjálfbærnivísir GDS: Höfuðborgarsvæðið í hópi 10 sjálfbærustu áfangastaðanna

Mynd: ©Íslandsstofa/VisitIceland.com
Mynd: ©Íslandsstofa/VisitIceland.com

Höfuðborgarsvæðið er á topp 10 lista yfir sjálfbærustu áfangastaðina, samkvæmt GDS sjálfbærnivísinum (e. Global Destination Sustainability Index). Alls tók 81 áfangastaður þátt og stekkur höfuðborgarsvæðið upp um 7 sæti frá því í fyrra.

 

2 árum á undan áætlun

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins og Meet in Reykjavík standa sameiginlega að þátttöku höfuðborgarsvæðisins í sjálfbærnivísinum en Meet in Reykjavík hóf vegferðina fyrir 10 árum. Í frétt á vef Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að árið 2023 hafi verið mörkuð stefna fyrir áfangastaðinn af hagaðilum með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um að vera leiðandi í sjálfbærni. Skilgreint markmið er að vera á meðal 10 efstu í GDS sjálfbærnivísinum fyrir árið 2027. Því markmiði hefur nú verið náð tveimur árum á undan áætlun og því er ljóst að höfuðborgarsvæðið er fremst í flokki áfangastaða á sviði sjálfbærni.

 

Fjölmargir þættir undir

GDS sjálfbærnivísirinn er alþjóðlegur mælikvarði sem metur frammistöðu áfangastaða þegar kemur að sjálfbærni á fjórum lykilsviðum:

 

  • Stjórnun áfangastaðar – Sem snýr þá einkum að starfi Markaðsstofunnar og Meet in Reykjavík
  • Frammistaða birgja – Hvernig ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu standa sig almennt þegar kemur að sjálfbærni.
  • Félagslegar framfarir – Nær yfir ýmsa þætti sem varða áfangastaðinn s.s., öryggi, spillingu aðgengi að upplýsingum, heilsu og vellíðan, jafnrétti og fjármögnunarkerfi.
  • Umhverfismál – Metur hvernig áfangastaður stendur sig í þáttum á borð við baráttu gegn loftslagsbreytingum, losun kolefnis, nýtingu endurnýjanlegrar orku, auðlindanýtingu, gæði almenningssamgangna, loftgæði og líffræðilegan fjölbreytileika

 

Norrænar borgir framarlega

Helsinki er nú annað árið í röð í fyrsta sæti GDS sjálfbærnivísisins á undan Gautaborg og Kaupmannahöfn. Alls eru 7 borgir frá Norðurlöndunum á topp 10 listanum.

 

Nánar um Sjálfbærnivísi GDS